Bækur

Út að drepa túrista er glæpasaga og jafnframt svipmynd af íslenskri ferðþjónustu  um það leiti sem kórónaveiran lamaði öll ferðalög um ísland og heimsbyggðina, vorið 2020. Sagan er byggð upp sem hefðbundin fletta í anda Agötu Christie en er á sama tíma ærslasaga í stuttum köflum, að einhverju leiti andsvar við Nordic Noir glæpasögum undanfarinna ára. Titill bókarinnar vísar í þá þversögn að starf íslenskra leiðsögumanna snýst að miklu leiti um að koma erlendum ferðamönnum lifandi í gegnum daginn.

Bekkurinn veitir innsýn í tólf mánaða tímabil þegar ferðamannabólan náði hámarki á Íslandi. Sjötíu og sex myndir lýsa síbreytilegri veðráttu um leið og textinn greinir frá fjölbreyttri mannlífsflóru jafnt sem eintóna hversdagsleika miðaldra manns á krossgötum – á vertíð sem virðist aldrei taka enda. Á einu ári fór Þórarinn Leifsson sjötíu og sex sinnum í Gullhring með erlenda ferðamenn. Þegar áð var við Geysi tók hann mynd af bekk sem stendur fyrir framan goshverinn Strokk. Hann skráði jafnframt hjá sér það markverðasta sem gerðist í hverri ferð og gaf deginum einkunn að hætti TripAdvisor.

Í Kaldakol  (2017) er öll Íslenska þjóðin flutt í heilu lagi til þýskalands undir því yfirskini að hræðilegar náttúrhamfarir séu yfirvofandi á Íslandi. Listakonan Kolbrún XL hefur hannað umhverfislistaverk; eins konar Míní-Ísland á fyrrverandi flugvelli í suðurhluta Berlínar. Verkefnið er skipulagt af fyrirtækinu Kaldakol – margir lesendur hafa séð í því íslenska fjárfestingarfélagið GAMMA. Bókin fékk frábæra dóma þegar hún kom út haustið 2017, enda þykir hún bæði fyndin og frumleg.

Maðurinn sem hataði börn (2014) er síðasta bók Þórarins fyrir börn. Sagan fékk glimrandi dóma og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Bókmenntaverðlauna starfsfólks bókaverslana – og síðast en ekki síst til barna- og ung­linga­bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs árið 2015. Kvikmynafélag Íslands hefur tryggt sér kvikmyndaréttin og Gunnar Björn Guðmundsson vinnur nú að handriti sem hann mun leikstýra sjálfur. Sjá viðtal við Gunnar hér.

Leikritið Útlenski Drengurinn var unnið upp úr léttlestrarbók sem Þórarinn Leifsson samdi fyrir námsgagnastofnun árið 2011. Þetta er er um sjötíu mínútna gamanleikur með alvarlegum undirtóni ætlaður stálpuðum börnum. Leikritið var frumflutt í Tjarnarbíó haustið 2014. Í textanum kemur fram mikil gagnrýni á hlutskipti barnungra flóttamanna á vesturlöndum.

Götumálarinn ( 2011)  er skáldævisaga byggð á flakki höfundar um Vestur-Evrópu upp úr miðjum níunda áratug síðustu aldar. Lesandinn berst vítt og breitt um Spán og Marokkó, inn í framandi og háskalegan heim götulistamanna og flækinga. Þetta er sú bók Þórarins sem fullorðnir lesendur kannast helst við.

Bókasafn Ömmu Huldar kom út á Íslandi haustið 2009 og hlaut hún Barnabókarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur stuttu síðar. Sagan var einnig tilnefnd til Norrænna bókasafnsverðlauna árið 2011. Þetta er sennilega víðförlasta bók höfundar því auk þess að hafa verið gefin út í Danmörku, Noregi, Eistlandi og Ítalíu er hún einnig væntanleg hjá brasilíska forlaginu Cereja árið 2019.

Leyndarmálið hans pabba kom út haustið 2007. Þetta var fyrsta bókin sem Þórarinn skrifaði, myndskreytti og braut um alveg sjálfur. Sagan hlaut strax afbragðs dóma og margar lærðar greinar voru skrifaðar um hana. Ber þá hæst grein eftir Dagnýju Kristjánsdóttur í TMM og B.A. Ritgerð eftir Elínu Björk Jóhannsdóttur. Bókin lagðist einnig fljótlega í landvinninga og kom fljótlega út í Danmörku, Þýskalandi, Finnlandi og Færeyjum. Danskir lesendur voru sérstaklega hrifnir og fékk höfundur opnuviðtal við sig í stórblaðinu Politiken.

Algjört frelsi skrifaði Þórarinn Leifsson ásamt Auði Jónsdóttur rithöfund. Bókin kom út haustð 2001 og fékk prýðilegar móttökur. Íslenskir bóksalar settu hana tildæmis í annað sæti yfir bestu barnabækur ársins. Þetta verk er eins konar upptaktur að höfundarferli sem hófst hálfum áratug síðar. Í litríkum myndskreytingum má greina rætur höfundar í myndasögum og flash hreyfimyndum sem voru í tísku í upphafi aldarinnar.