Maðurinn sem hataði börn

Maðurinn sem hataði börn kom út haustið 2014, fékk afbragðs dóma og var fljótlega tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunana jafnt sem verðlauna Bókmenntaverðlauna starfsfólks bókaverslana. Eftir áramótin var bókin síðan til­nefnd til barna- og ung­linga­bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs 2015. Til­kynnt verður um úr­slit við at­höfn í Reykja­vík þann 27. októ­ber 2015. Síðast en ekki síst stefnir Kvikmynafélag Íslands ehf að því að gera kvikmynd upp úr bókinni sem Gunnar Björn Guðmundsson mun leikstýra.

Sylvek býr hjá ömmu sinni sem tuðar yfir því að ekkert gerist í Reykjavík – ekki miðað við iðandi mannlífið í Barselóna þar sem þau bjuggu áður. En svo fer allt af stað.

Einhver fer að myrða unga drengi í hverfinu. Um svipað leyti flytur dularfullur leigjandi með ófrýnilegan hund heim til Sylveks. Sá segist hata börn. Inn í söguna fléttast frægur rithöfundur, reffileg blaðakona, lögga sem er hrædd við blóð, hin ógurlegu steratröll og síðast en ekki síst Sjónvarp Stasímon þar sem stendur til að kortleggja lífið í Reykjavík fyrir raunveruleikasjónvarpsþátt sem á engan sinn líka.

**** 1/2
„Í Manninum sem hataði börn tekst Þórarinn Leifsson á við háalvarleg málefni, málefni sem standa íslensku samfélagi nærri og gera þau fyrir vikið enn ógnvænlegri. Sprúðlandi húmor og góð persónusköpun koma hins vegar í veg fyrir að lesandanum líði eins og hann sé að lesa virkilega niðurdrepandi úttekt á samfélagsmeinum Reykjavíkurborgar og bókin er í suttu máli fantaflott og gott og vandað dæmi þess að íslenskar barnabækur eigi framtíðina fyrir sér.“
Helga Birgisdóttir / DV

****
„Þórarinn hefur hér skrifað bráðhressa bók með skuggalegu yfirbragði, sem á sama tíma er hárbeitt ádeila, ískrandi fyndin og ferlega frumleg en fyrst og fremst bráðskemmtileg. Og þetta er heldur ekkert bara bók fyrir börn, heldur fólk á öllum aldri sem finnst gaman að veltast um af hlátri við að lesa fyndnar og frumlega bækur.“
Anna Lilja Þórisdóttir / Morgunblaðið

****
„Hress og bráðfyndin saga, þó með drungalegu yfirbragði. Hárbeitt en samt svo lúmsk ádeila á íslenskt samfélag sett fram í furðusagnastíl … uppfull af stórskemmtilegum og frumlegum persónum.“
Halla Þórlaug Óskarsdóttir / Fréttablaðið

„Í Manninum sem hataði börn er deilt á nútíma okkar og menningu en Þórarni tekst að fjalla um viðfangsefni sín með slíkum húmor að lesandinn upplifir aldrei að verið sé að lesa yfir sér. Ádeilan er stundum mjög beinskeytt sem væri ef til vill þreytandi ef textinn héldi ekki einnig léttum tóni með glettni í nálguninni á efniviðinn. Myndskreytingar höfundarins auðga söguna og glæða skrautlegar persónurnar enn meira lífi.“
Elín Björk Jóhannsdóttir / Starafugl

„Maðurinn sem hataði börn er stórskemmtilegt verk. Það skilur eftir sig spurningar, bæði um verkið sjálft og það þrekvirki sem höfundi tekst, að semja sögu sem er eins fyndin, gagnrýnin og margslungin og raun ber vitni. Einnig sitja eftir spurningar um hvað telst viðeigandi fyrir börn annars vegar og fyrir fullorðna hins vegar.”
Sólveig Ásta Sigurðardóttir / Sirkústjaldið