Bekkurinn

Ég fór á fætur hálfsjö eftir að hafa legið andvaka mestalla nóttina en ákvað samt að eiga góðan dag. Mættur fyrstur niður á Skarfabakka ásamt krökkunum í gulu úlpunum sem sjá um að dreifa þúsundum túrista úr skipum í mismunandi rútuferðir út á land. Bílstjóri dagsins var Pólverjinn Gregory. Gregory var fyrst og fremst listasmiður þótt hann kæmi hingað á hverju sumri til að keyra rútubíla. Fínlegur maður með mjúka rödd og eirðarlausa fingur sem virtust þrá það að komast sem fyrst aftur á verkstæðið.

Á einu ári fór Þórarinn Leifsson sjötíu og sex sinnum í Gullhring með erlenda ferðamenn. Þegar áð var við Geysi tók hann mynd af bekk sem stendur fyrir framan goshverinn Strokk. Hann skráði jafnframt hjá sér það markverðasta sem gerðist í hverri ferð og gaf deginum einkunn að hætti TripAdvisor.

Bekkurinn veitir innsýn í tólf mánaða tímabil þegar ferðamannabólan náði hámarki á Íslandi. Sjötíu og sex myndir lýsa síbreytilegri veðráttu um leið og textinn greinir frá fjölbreyttri mannlífsflóru jafnt sem eintóna hversdagsleika miðaldra manns á krossgötum – á vertíð sem virðist aldrei taka enda.