Albertína býr í skrýtnum heimi. Þar finnast engar bækur og í skólanum lærir hún bara um vexti og lán. Internetið var bannað löngu áður en hún fæddist og hinn hræðilegi Gullbanki er langt kominn með að sölsa veröldina undir sig. Og svo byrjar fullorðna fólkið að hverfa. Dag einn birtist tröllkonan Huld með risastórt bókasafn og hættulega þekkingu. Ekkert verður sem fyrr.
Bókasafn Ömmu Huldar kom út á Íslandi haustið 2009 og í framhaldi í Danmörku, Noregi, Eistlandi og Ítalíu. Bókin fékk barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar 2010 og var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2011.
„Dúndurskemmtilegt“
Egill Helgason / Kiljan
„Þetta er vísindaskáldsaga fyrir börn um kreppuna, skrifuð af brjáluðu hugmyndaflugi og endalausri virðingu fyrir börnum.“
Ásgeir H. Ingólfsson/ kistan.is
Bókasafn ömmu Huldar er að mínu viti dæmi um barnabók þar sem höfundurinn er fyrst og fremst á höttunum eftir góðri sögu og með
sögunni vill hann sýna fram á ákveðna hluti – og getur stílfærum höfundi nokkurntímann verið of mikið niðri fyrir?
Jórunn Sigurðardóttir / Seiður og Hélog – RUV
„Alveg hryllilega skemmtileg bók. Sérlega frískandi og hollur lestur.“
Freyr Eyjólfsson / Rás 2
„Ég held að hér hafi bæst við perla í íslenskar barnabókmenntir. Því gefum við bókinni okkar bestu meðmæli.“
Sigríður B. Thorarensen / eyjan.is
„Pottþétt besta bankahrunsbókin fyrr og síðar. Mér finnst ég alltaf hafa himinn höndum tekið þegar ég rekst á svona flottar, væmnislausar en samt hlýjar barnabækur. Svona á að gera þetta!“
Guðrún Eva Mínervudóttir
„Bókasafn Ömmu Huldar eftir Þórarin Leifsson er eiginlega dæmisaga um þensluna og þau gildi sem menn gleymdu eða seldu á uppgangsárunum.“
Árni Matthíasson / Morgunblaðið
„Bókasafn Ömmu Huldar, á erindi á þeim tímum sem við lifum núna.“
Alexander Sær Elfarsson/ midjan.is
„Roald Dahl Íslands“
Kolbrún Bergþórsdóttir/ Kiljan
„Þetta er bók sem er skrifuð af miklu fjöru,
miklu andríki, og hún er skemmtileg.“
Páll Baldvin Baldvinsson/ Kiljan
„Það er skemmst frá því að segja að verk þetta er vel heppnað; slungið og læsilegt. […] En í þjöppuðu máli virkar sagan alltént sem hreint og klárt ævintýri með tilheyrandi furðum, töfrum og ógnvekjandi og dul-úðugu andrúmslofti. […] Kemur og æsileg, spennandi og húmorsrík atburðarásin stöðugt flatt upp á lesandann. “
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson / Morgunblaðið
„Frábær bók – takk! Var ad klára ad lesa hana – og hún er mögnud!! Á kvikmyndamáli thá er eins og Truffauts ”Fahrenheit 451” og George Lucas ”Star Wars” rekist á … einhversstadar nidri í banka og ásamt hópi af mögnudum krökkum. Og nidurstadan er eitthvad gjörsamlega einstætt. Hún er meiriháttar! Kemst ekki en vona allt gangi sem best med bókina – og trúi bara ekki ödru!“
Birgir Thor Møller, þýðandi
„Stórkostlega skemmtilegt og spennandi ferðalag.“
Elísabet Indra Ragnarsdóttir, útvarpskona
„Þórarinn Leifsson […] er höfundur sem vert er að taka eftir… Bókasafn ömmu Huldar er stórskemmtileg saga sem gleður jafn unga sem aldna. Ég hló upphátt við lesturinn á milli þess sem mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds! Þórarinn hefur mjög beittan stíl sem lætur hárin rísa og ögrar lesandanum. Það er nauðsynlegt að allir krakkar lesi bækur Þórarins Leifssonar! Fullt hús!“
Felix Bergsson
„Skemmtileg er hún víða og óhamin í andanum.“
Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttablaðið