Bókasafn Ömmu Huldar – 1. Kafli

Fyrsti dagur Albertínu Haraldsdóttur í nýjum skóla var engin skemmtiferð. Raunar var hún heppin að lifa af. Slapp með blóðnasir, þrjá marbletti á vinstri handlegg fyrir ofan olnboga og smávegis klór, auk þess sem önnur ermin rifnaði af nýju hettuúlpunni.

Silfurskottuskóli stóð fyllilega undir nafni. Þetta var óttalega snautleg einnar hæðar húsalengja úr gráum múrsteinum, umkringd  körfuboltavelli og ryðgaðri girðingu. Húsið hafði verið flugstöðvarbygging í gamla daga og bak við það var mikið mýrarflæmi sem sumir sögðu að væri fullt af óvættum og skrímslum. Enginn hætti sér nokkurn tímann þangað út. Hvorki fullorðnir né börn.

Albertína villtist á leiðinni. Hún hafði næstum álpast inn á mýrina þegar fullorðin rödd hrópaði á eftir henni:
– Hvern fjandann ertu að þvælast krakki? Veistu ekki að þetta er bannsvæði?
– Gott og blessað, hugsaði Albertína þegar hún sá loks skólabygginguna. Það mættu alveg vera fleiri skilti í þessari borg. Og fólk mætti vera ögn vingjarnlegra.
Hún var orðin aðeins of sein þegar hún fann skólann og var ekki fyrr búin að hrinda upp þungri útidyrahurðinni en hún hrasaði og rétt komst hjá því að detta á hausinn. Gólfið var klístrað og fitugt. Reyndar var skólinn allur drulluskítugur.

Seinna, þegar Albertína hafði verið í skólanum í nokkra daga, frétti hún að skúringarkonan hefði horfið sporlaust nokkrum vikum áður og ekki væri búið að ráða aðra í staðinn. Albertína tók líka eftir því að margir nemendur voru í skóm með göddum undir til að detta ekki á sleipum göngunum. Kennarar sem voru kallaðir til í afleysingum áttu ekki sjö dagana sæla í Silfurskottuskóla. Þeir fálmuðu sig eftir göngunum með því að ríghalda í fatakróka, hrasandi í öðru hverju skrefi. Þá mátti heyra krakkana skríkja af niðurbældum hlátri.

En þetta vissi Albertína auðvitað ekki þegar hér var komið sögu. Hún var fljót að finna nafnið sitt á stórum tölvuskjá í anddyrinu. Svona skjáir voru algengir á flugvöllum í gamla daga og þessi var örugglega hundrað og fimmtíu ára gamall.

Þegar Albertína kom að kennslustofunni heyrði hún lágvært skvaldrið í flatskjánum fyrir innan. Hún ákvað að freista þess að vera í úlpunni áfram, dró hettuna yfir hausinn og bankaði nokkrum sinnum laust á hurðina. Svo opnaði hún dyrnar varlega.

Það fyrsta sem hún sá var sláni með slöngulokka og arnarnef sem lá fram á skrifborð með hönd undir kinn og hlaut að vera kennarinn. Hann var að fitla við stillingarnar á gamaldags kennsluvél. Leit snöggt upp og hvessti á hana blóðstorknum augum þegar hún nálgaðist borðið. Áður en hún náði að kynna sig gelti hann lágt eins og feiminn kjölturakki:  – Þetta er hún Albertína Haraldsdóttir. Hún er ný í bekknum. Þið skuluð endilega taka mjög vel á móti henni Albertínu. Endilega hreint. Hún er góðu vön enda býr hún í Gullbúrinu. Nýju blokkinni við höfnina. Þessari sem er fyrir fína og ríka fólkið. Röddin var köld eins og grá, kattarleg augun.

Þessi maður hefur ætlað sér eitthvað allt annað í lífinu en það að vera kennari, hugsaði Albertína. Ef barnamorðingi væri viðurkennt starf þá hefði hann hiklaust valið sér það. Arnarnefið gretti sig og benti í áttina að auðu sæti í öftustu röð. Albertína skynjaði bekkinn undan hettunni þegar hún gekk á milli sætaraðanna. Á að giska þrjátíu hausar, fæstir litu upp eða veittu henni sérstaka athygli. Ósköp venjulegir krakkar. Stofan sjálf var eins og flestar aðrar skólastofur sem hún hafði séð. Auglýsingaskjáir á öllum veggjum sýndu myndir af sælgæti, gosdrykkjum og nýjum bílum. Þegar hún var komin alveg að öftustu röð tók hún eftir því að skjárinn á veggnum fyrir aftan sýndi auglýsingu um Gullbúrið, nýja heimilið hennar. Hún gretti sig ósjálfrátt.

Sessunautur hennar í öftustu röð virti hana ekki viðlits þegar hún settist eins hljóðlega og hún gat. Þetta var ósköp væskilslegur drengur með skjannahvítt hár sem stóð út í allar áttir. Albertínu fannst hún kannast við hann. En hvaðan? Hann var með þunga bauga undir útstæðum augum í snjóhvítu andlitinu. Munnurinn varð að örlitlu reiðilegu striki þegar hann saug upp í nefið. Hún ákvað að láta sér fátt um finnast. Þetta fyrirbæri mátti svo sem vera í fýlu ef það vildi. Það var hyggilegast að einbeita sér að því sem kennarinn var að segja. Eða … hvað var hann að segja?

Kennarinn muldraði eitthvað óskiljanlegt og stóð þreytulega upp frá borðinu þannig að ískraði í skrifstofustólnum. Albertína sá ekki betur en að hann horfði hæðnislega á bekkinn um leið og hann fiktaði við takkana á kennsluvélinni.
– Jæja, krakkar mínir. Nú er um að gera að vanda sig. Annars verðið þið undir í lífsgæðakapphlaupinu!
Hann ýtti á hnapp ofan á tækinu. Óþægilegt ískur heyrðist. Vélin hafði ekki verið stillt í langan tíma. Líkt og annars staðar tíðkaðist hérna að kenna með hátíðnihljóðum sem virkuðu á mismunandi hátt á heilastöðvar barnanna og örvuðu getu þeirra til náms. Refsað var með rafstraumum. Nú var það stærðfræðin eins og svo oft áður. Endalaus stærðfræðin. Kennarinn benti á nemanda af handahófi og spurði:
– Hvað er þrjúþúsundáttahundruðogfimmtán sinnum átjánhundruðogsjö?

Ef nemandinn svaraði ekki rétt ýtti kennarinn á lítinn, rauðan hnapp á kennslutækinu. Við það fór örlítill rafstraumur, 25 volt, í gegnum loftið frá þar til gerðum sendi og í höfuð nemandans. Síðan spurði kennarinn annarrar spurningar. Ef svarið var aftur rangt var aukið við strauminn um 25 volt og þannig koll af kolli upp í 150 volt sem var algjört hámark.
Það var mjög sjaldgæft að kennari tæki sama nemandann fyrir oftar en einu sinni í hverjum tíma. Þó gat það gerst ef kennarinn var í vondu skapi eða illa fyrir kallaður.

Reikningsdæmin voru aðeins auðveldari en Albertína átti að venjast úr gamla skólanum og henni létti við að heyra það. Stærðfræði hafði aldrei verið hennar sterkasta hlið. Kannski slyppi hún við allt of marga höfuðverki í vetur. Hún horfði yfir bekkinn og tók eftir því að enginn var með skólatöskur frekar en venjulega. Af hverju hafði hún haldið að þetta væri eitthvað öðruvísi í þessum skóla? Albertína andvarpaði þungt. Kannski var það rétt sem pabbi sagði. Hún hefði átt að fæðast fyrir hundrað árum síðan þegar skólar voru fullir af bókum og börnum var meira að segja kennt að skrifa. Hún lokaði augunum sem snöggvast og reyndi að ímynda sér að hún lægi í garðinum heima í Sóltúni. Fyndi stráin kitla hálsinn meðan ilmur af nýslegnu grasi léki um nasirnar. Aldrei hefði henni dottið í hug að hún myndi sakna þess jafn mikið að liggja þarna. Nú var eflaust búið að malbika yfir allt saman og mála hvítar rendur fyrir bílastæði.

Frekjuleg skólabjallan vakti hana af dagdrauminum. Tíminn var liðinn. Albertína afréð að brjóta ísinn og spyrja hvíthærða fýlupokann til nafns.
– Láttu mig í friði, helvítið þitt, hvæsti sá hvíthærði. Ég er enginn andskotans félagsráðgjafi!
Albertínu brá svo mikið við þessi hastarlegu viðbrögð að hún var hálf utan við sig þegar hún kom út á ganginn. Þess vegna uggði hún ekki að sér og tróðst næstum undir á sleipu gólfinu þegar krakkaskarinn flykktist út úr stofunni. Hún steig harkalega á hælinn á einhverjum fyrir framan sig, hrasaði og náði taki á úlpu í fatahenginu sem forðaði henni frá  að detta beint á andlitið. Um leið skaust eitthvað upp úr úlpunni og small í gólfið með hvelli. Málmrör, víraflækja og annað drasl dreifðist yfir skítugt gólfið. Hún beygði sig ósjálfrátt eftir því og hafði rétt náð taki á víraflækjunni þegar skuggi færðist yfir hana.
– Láttu þetta vera! hvæsti sá hvíthærði fyrir aftan hana. Passaðu þig!
Það var rifið í handlegginn á henni. Hún fann högg skella á andlitinu. Svo varð allt svart.

Þegar Albertína rankaði við sér var hún öll dofin í framan. Hvíthærði drengurinn var alveg ofan í henni. Hann vandaði sig svo mikið við iðju sína að munnurinn opnaðist og glitti í tanngarð eins og í hákarli. Þessi kjaftur hafði ekki komið nálægt tannbursta lengi og hræðileg andfýlan gaus upp á móti aumingja Albertínu.
Henni flökraði. Var alveg við það að kasta upp.
– Kyrr! gjammaði sá hvíthærði. Hvað er þetta!
– Hvað gerðist? emjaði Albertína.
– Haltu kjafti, sagði drengurinn. Vertu kyrr! Þú ert öll í blóði og ógeði.
Hann þurrkaði framan úr henni með blautri, kaldri tusku sem hann dýfði öðru hvoru undir rennandi vatn. Þau voru stödd inni á klósetti.

– Óli skoffín rotaði þig, sagði drengurinn. Ég reyndi að vara þig við. Ertu ekki vön að horfa hvar þú gengur? Ryðst beint á hælana á Óla eins og farlama fíll bara. Búmm búmm. Hvítinginnn stóð upp og hermdi eftir fíl með því að þramma um gólfið. Hann gerði þetta nokkuð vel þótt hann væri grindhoraður og miklu líkari hýenu en fíl.
– Rotaði mig? Ertu ekki að grínast? sagði Albertína og reyndi að vera svolítið hörð af sér um leið og hún settist upp.
– Já maður! Hann henti víst stígvéli með göddum í kjaftinn á þér. Ég var beint fyrir aftan þig og sá þetta ekki. Það fossblæddi úr rananum á þér! Gæinn lætur verkin tala ef svo má segja! Enda fokking mállaus.

Hvíthærði drengurinn talaði hratt og var svo orðljótur að Albertínu fannst hún aldrei hafa heyrt annað eins. En þrátt fyrir vaðalinn, klístrað, hvítt hárið og skítug, ljós fötin sem hann klæddist fékk Albertína á tilfinninguna að hann gæti ekki verið svo slæmur. Hún sá ekki betur en að bros léki um munnvik hans. Í það minnsta glott.
– Valli heiti ég, sagði hann og saug upp í nefið. Krakkarnir kalla mig Valla veiru, ekki spyrja mig af hverju.

Albertína virti fyrir sér veiklulegt yfirbragð drengsins og hlustaði á hann ræskja sig. Hún þurfti ekki að spyrja af hverju hann var kenndur við veirur.
– Og fyrirgefðu hvað ég var eitthvað hvefsinn við þig áðan, bætti Valli við. Nýnemar mega ekki ávarpa eldri nemendur að fyrra bragði. Allavega ekki fyrsta daginn. Hvað er svona lítil og sæt stelpa annars að gera hér? Ertu ekki aðeins of saklaus fyrir okkur? Næstum búið að drepa þig í fyrstu frímínútunum? Haha! Býrð í Gullbúrinu, er það ekki?
– Það er víst …
– Hvernig er það?
– Bara … ég veit það ekki. Ömurlegt.
Sá hvíthærði glotti. – Datt það í hug, sagði hann.
– Og það er ekki rétt sem kennarinn var að gefa í skyn. Við erum ekkert rík.
– Ég veit það, sagði Valli. Auðvitað ertu ekkert rík. Þeir gera þetta alltaf. Reyna að stía okkur í sundur með svona kjaftæði. Ef þér finnst ömurlegt að búa í Gullbúrinu þá finnst þér örugglega ennþá verra að vera í Silfurskottuskóla. Velkomin til helvítis á jörðu!
Það var fyrst núna að Albertína tók eftir því að önnur ermin á nýju úlpunni hafði losnað næstum alveg af. Hékk bara á nokkrum þráðum.
– Hún rifnaði þegar ég dró þig inn á klósett. Óli hefði gengið frá þér. Sem betur fer kom Ragnheiður skólastjóri og gekk á milli þannig að greyið situr eftir enn einu sinni. Óli er ekkert svo slæmur strákur, skilurðu. Hann er bara nett vangefinn.

Albertína kinkaði kolli. – Hvaða rör var þetta? spurði hún.
– Rör?
– Rör og dót sem datt í gólfið rétt áður en þessi Óli réðst á mig.
Valli varð alvarlegur á svipinn; hætti að þvo henni í framan, greip í vaskinn og togaði sig á fætur. – Hvaða rör? hvæsti hann.
– Þú hlýtur að hafa séð það. Fullt af drasli.
– Hlustaðu nú á mig Abba. Ég get kallað þig Öbbu, er það ekki?

Albertína samþykkti og hann hélt áfram: – Hérna í þessum skóla, Silfurskottuskóla, eru krakkar ekki að skipta sér af því sem krökkum kemur ekki við. Óli er enginn blokkflautuleikari ef þú heldur það. Ekki rugla í honum. Allt í lagi?
Albertína umlaði eitthvað til samþykkis um leið og hún þreifaði varlega á bólgnu nefinu. Það borgaði sig að fara varlega í þessum skóla.
Mjög varlega.