Ég veit ekki hvernig katalónska skiptinemanum datt í hug að auglýsa íbúðina sína til leigu í fjöldapósti um miðja nótt. En það svínvirkaði. Ég hímdi hálf slompaður og dofinn yfir tölvunni þegar pósturinn datt inn í hólfið. Ennþá reiður við sjálfan mig fyrir að hafa farið að rífast við Sollu um eitthvað sem skipti engu máli. Og reiður við hana fyrir að gera alltaf svona mikið mál úr öllu. Ég átti afmæli. Ókei, ég drakk kannski einum drykk of mikið en þetta var mitt andskotans afmæli.
(Smásaga sem birtist fyrst í TMM)
Þrátt fyrir suðið í tölvunni heyrði ég hana snökta inni í rúmi. Ég snéri mér í hálfhring í skrifstofustólnum og galaði í átt að svefnherberginu: Hlustaðu á þetta, ástin mín! Íbúð í Barselóna í allt sumar! Hvernig líst þér á?
Og um leið breyttist allt. Solla gleymdi öllu um rifrildið og að ég væri ömurlegur og tilfinningalega dofinn klámfíkill. Dauðadæmt ellefu mánaða gamalt ástarsamband skransaði aftur á upphafsreit.
Það dreymdi alla um Barselóna. Flestir sem við þekktum höfðu einhverntímann keypt sér flugmiða suður í sólina, sprangað upp og niður Las Ramblas, dansað trilltan dans á næturklúbbi nálægt Placa Real eða drukkið bleikt freyðivín niðri á strönd í morgunsárið. Þetta kallaðist að lifa lífinu.
Solla ljómaði á flugvellinum. Og í flugvélinni. Það glampaði á skærblá augun yfir rjóðum kinnum, meira að segja ljósrauðar krullurnar voru hamingjusamar. Hún flissaði yfir allt of nærgöngulum spurningum leigubílstjórans og yppti bara öxlum þegar við komumst að því að hann hafði svindlað á okkur. Það er eitthvað mikið að þér ef þú elskar ekki Barselóna.
Það leið rúm vika áður en mesti ljóminn fór af endalausum þriggja rétta málsverðum í hádeginu og rölti um þröngar götur gotneska hverfisins.
Að tveim vikum liðnum fór að sækja að mér þungur kvíði út af peningamálum. Ég þurfti samt sem áður að safna kjarki í heilann dag áður en ég lagði í að kanna stöðuna á netbankanum. Hún var verri en ég hafði ímyndað mér. Ég kyngdi sopa af volgum flöskubjór og smellti á yfirlitið. Það var að minnsta kosti auðvelt að átta sig á þessu. Sama hundrað evru upphæðin tekin út úr hraðbanka næstum því á hverjum degi. Helgina á undan höfðu vinahjón okkar verið í bænum og þá færðumst við aðeins í aukana, úttektum fjölgaði upp í tvær á dag.
Ég lokaði augunum og fór að rifja upp í hvað þetta fór. Við höfðum farið út að borða öll kvöldin sem þau voru í borginni. Þau borguðu oftast drykkina á barnum á undan og svo splittuðum við reikningnum á matsölustöðunum. Það hallaði aðeins á þau ef eitthvað var. Nú rifjaðist upp fyrir mér að við höfðum borgað allt of mikið í þjórfé á galesískum tapas-stað rétt hjá Ciutadella-garðinum. Hvernig í ósköpunum datt okkur í hug að borga sextíu evrur í þjórfé?
Svo voru það plakötin í þynnkunni á bókamarkaði Sant Antóní á sunnudeginum. Solla alveg æst í að eignast einhver fáránleg plöstuð ljósrit svo við þurftum að fara aftur í hraðbanka til að ná í meira skotsilfur. Við hliðina á bankanum hafði ég fengið mér fyrsta kranabjór dagsins og asnaðist stuttu síðar til að kaupa stuttbuxur. Ég fékk dæmið ekki til að ganga upp. Geta bláröndóttar stuttbuxur kostað fjörutíu evrur? Daginn eftir róuðust við aðeins í eyðslunni. Gott ef þriðjudagurinn var ekki með öllu laus við úttektir úr hraðbönkum.
Um miðja vikuna fór þeim hinsvegar að fjölga hratt aftur. Föstudagurinn var algjör hörmung. Dagurinn hafði byrjað með fimm evru kaffibolla neðarlega á Römblunum og endaði á því að við buðum bláókunnugri konu út að borða fyrir misskilning. Ég hafði skroppið heim til að ná í sólgleraugun og þegar ég kom út aftur sat ljóshærð miðaldra kona með hrukkótta leðurkenda húð við hliðina á Sollu. Hún talaði ensku með glannalegum hollenskum hreim. Þær voru komnar í hrókasamræður um stjörnumerkin og ágæti þess að læra spænsku með því að lesa myndatexta í HOLA! svo þegar hún elti okkur inn á veitingastaðinn handan götunnar hélt ég náttúrlega að þær Solla væru búnar að ákveða að borða saman. Sem sýndi sig seinna að var misskilningur. Solla snappaði þegar ég borgaði fyrir allt borðið.
– Af hverju varstu að bjóða þessari fuglahræðu með? hvæsti hún þegar við horfðum á eftir kerlingargreyinu skakklappast inn dimma hliðargötu, sveiflandi fátæklegu silfurlitu veski utan í veggina.
– Ég hélt að …
– Hélstu hvað? Ertu hálfviti, Stefán?
Og þá fuðraði ég upp. Öskraði framan í einhvern blómasala sem var búinn að abbast upp á okkur allt kvöldið. Solla fór eina ferðina enn að tala um að ég hefði enga stjórn á skapinu og hvað þessi blómasali hefði nú gert okkur og að ég yrði að fara á reiðistjórnunarnámskeiðið sem hún hafði fundið á netinu rétt áður en við fengum tölvupóstinn um íbúðina. Og þá varð ég auðvitað ennþá reiðari. Eiginlega alveg foxillur.
Svona liðu nokkrar vikur í viðbót. Það var mánudagur um mitt sumar. Hitinn alveg að drepa mig. Ég sat á klósettinu og reyndi að ná lágmarks valdi á iðrunum sem sulluðust neðan úr mér. Hryllti mig við tilhugsunina um grænt absint gallið á einhverjum hræðilega tilgerðarlegum art dekó stað. Og hvaða fólk var þetta sem við sátum uppi með um nóttina? Sænsk-finnskur arkitekt sem þráskallaðist við að tala óskiljanlega dönsku við allt og alla og taugaveikluð norsk kærasta hans með sólarexem og Gaudi-þráhyggju. Skjótið mig!
Sálin eins og opið sár í sjóðheitum myrkum rakanum á gluggalausu baðinu. Hvað lykt var þetta? Rotnun úr iðrum borgarinnar? Öll borgin búin að gubba á mánudegi og súran dauninn af kókaínblönduðu rauðvínssulli lagði upp úr lögnunum. Skjótið mig!
Ég lokaði setunni og settist niður með ímyndaða reiknivél fyrir timbruðum hugskotssjónum. Ef við héldum svona áfram ættum við enga peninga eftir í lok mánaðarins. Húsaleigan var að vísu greidd fyrirfram þessa tvo mánuði sem við áttum eftir. Ástandið var engu að síður skelfilegt.
Ég lokaði augunum til að sefa kvíðann sem lagðist yfir mig eins og mara. Lagði hausinn upp að veggnum og reyndi að einbeita mér að hljóðunum sem bárust í gegnum hann.
Daufur ómur af tónlist. Helvítis fíflin niðri að ríða. Þeir settu alltaf sama Sigurrósar-lagið í græjurnar og stilltu á hæsta. Þar með vissi allt húsið hvað var í gangi. Á eftir lágu þeir reykjandi úti á svölum, flissandi á máli sem ég giskaði á að væri katalónska. Ef ég teygði mig fram yfir handriðið á svölunum sá ég glitta í risastór arnarnef sem gægðust undan slöngulokkum. Tveir sjálfumglaðir páfagaukar í pokabuxum.
Nú bárust hljóð að ofan. Hvellir þegar leirtaui var hent í vask. Síðan stutt hlé áður en gamli maðurinn fór að skammast í sjónvarpinu eins og hann gerði alltaf eftir matinn.
Loks sefaðist hann. Það datt á dúnalogn.
Ískaldur svitadropi féll niður á magann á mér. Ég ákvað að fróa mér. Solla myndi ekki vakna nærri því strax. Ég stóð upp og lyfti klósettsetunni. Hugsaði um ensku stelpuna í kolektívinu á móti. Hvernig hún lagði nánast á flótta þegar ég var að útskýra að við værum tónlistarnemar. Við Solla hefðum einmitt kynnst í mötuneyti Listaháskólans í Reykjavík. Fyndist henni það ekki merkilegt? Ég hafði sagt ensku leiðindaskjóðunni alveg fáránlega mikið um okkar hagi í þetta eina skipti sem við ræddum saman á ganginum.
Hún hafði bankað upp á til að fá lánað salt þegar ég var að ranka við mér eftir langan hádegisverð bak við markaðinn á Römblunum, tæpur líter af húsvíni átti eftir að gufa upp úr taugakerfinu. Solla lá ennþá korrandi inni í rúmi. Ég gætti ekki að mér áður en ég reif upp hurðina fram á gang. Stóð þarna eins og auli í sjóðandi hitanum með standpínutjald á íþróttabuxunum. Sá hvernig andlitið á ensku stelpunni umturnaðist í blöndu af viðbjóði og ótta. Hafðu þetta enska tæfa! Hún veinaði þegar ég renndi vinstri lófanum niður magann á henni og þrýsti á snípinn með löngutöng, nartaði í bústinn hnakkann og stakk mér síðan á bólakaf inn í þrengslin þannig að rasskinnarnar flengdust utan í magasekkinn á mér með háum smelli.
Gulbrúnt sæðið spýttist undir klósettsetuna og minnti á hryllilegan gröft í b-mynd. Ég þurrkaði það af í snatri með klósettpappír og sturtaði niður. Þvoði mér um hendurnar, fullur andstyggðar á sjálfum mér. Ég opnaði hurðina varlega fram í niðdimmt holið, hlustaði. Fannst eins og einhver hefði verið að fylgjast með mér. Staðnæmdist í svefnherbergisgættinni. Hlustaði þangað til að ég heyrði hroturnar í Sollu.
Nú lá á að lappa upp á sjálfsvirðinguna. Gera gagn. Ég ákvað að fara í þvottahúsið áður en Solla myndi vakna. En fyrst: verðlaun í líki afréttara! Einn lítill kranabjór úti á horni myndi þoka burt velgju helgarinnar.
Ég læddist á tánum inn í svefnherbergið og fór að róta saman fötum til að þvo, ýmist af gólfinu eða upp úr bláu ferðatöskunni sem lá opin á sama stað og daginn sem við komum. Úr þessu varð furðu mikil hrúga miðað við stuttan tíma í borginni.
Í einum vasa á töskunni fann ég hvítan Sigurrósarbol sem Solla hafði gefið mér í afmælisgjöf um vorið. Framan á bolnum var skuggamynd af mannveru sem stóð mitt á milli tveggja trjáa. Ég skildi ekki myndina og hlustaði ekki mikið á Sigurrós fyrir utan gaulið sem barst óhjákvæmilega frá neðrihæðinni. En núna var hvíti bolurinn sannkallaður happafengur. Lyktin af hreinni bómull róaði mig. Ég klæddi mig í flíkina, tróð skítugum þvottinum í sængurver og slagaði fram í örmjóa forstofuna, út á heitan og rakan ganginn.
Taupokinn var þyngri en ég bjóst við. Hann klóraði í vegginn eins og hann væri að reyna að halda aftur af mér meðan ég klöngraðist niður örmjóan stigaganginn.
Neðst beið súkkulaðibrúnn kakkalakki á stærð við elspýtustokk. Paddan lá afvelta fyrir framan útihurðina hálf dauð ef eitri sem pakístanska samlokubúðin við hliðina á var óspar á að úða dag og nótt. Ég kyngdi spýju sem kom upp í hálsinn og klofaði yfir viðbjóðinn. Heitt loftið fyrir utan mætti mér eins og veggur. Ég pírði augun til að virða fyrir mér torgið, letilega ferðamennina og einstaka geðsjúkling sem þeyttist framhjá á skærrauðu borgarhjóli. Hommabarinn sem strákarnir á neðri hæðinni ráku var ennþá lokaður en Halal-slátrarinn á móti var löngu búinn að opna. Hér við torgið mættust tveir gjörólíkir menningarheimar. Hommarnir hötuðu múslimana og múslimarnir hötuðu hommana og óléttu vændiskonurnar út á horni. Allir sameinuðust svo í að hata okkur, norrænu smáborgarana sem vorum svo augljóslega fædd með silfurskeið í munni.
Úti á horni var hægt að fá kranabjór á eina Evru glasið. Þetta var ódýrasti drykkurinn í bænum. Barþjónninn var náfölur bólugrafinn ruddi með stallaklippingu. Hann gretti sig ógurlega þegar ég kallaði „oiga“ í þriðja sinn til að þvinga hann úr kjaftatörn við fastakúnna. Ég vildi minn kranabjór sem hann sullaði niður í látlaust mjólkurglas og skellti á borðið án þess að virða mig viðlits.
Það slaknaði á öllum vöðvum þegar ég kyngdi bjórnum, barstóllinn boraðist upp í rassgatið á mér og rann saman við mænuna. Ég benti ofan í glasið með vísifingri til að biðja um annan. Í þetta sinn var prins Valíant mættur um leið, tilbúinn að fylla á. Ég tæmdi glasið í einum teyg, slengdi tveimur evrum á borðið og gekk út í brennandi sólskinið án þess að kveðja.
Taupokinn virtist hafa þyngst í pásunni. Hann sveiflaðist til hliðanna og boraði sig niður í vinstri öxlina í hverju skrefi. Þegar ég sá glytta í þvottahúsið velti ég fyrir mér hvers vegna það væri ekki löngu farið á hausinn. Kannski kostaði voðalega lítið að reka það. Gjald var tekið fyrir allt. Sápan og mýkingarefnið kom úr hvítum sjálfsala á veggnum. Til hliðar við hann hékk trosnaður miði á spænsku og ensku með númeri sem átti að hringja í ef eitthvað bilaði. Undir gluggakistunni var langur trébekkur með ruslakörfu við annan endann og silfurlitaðan kaffisjálfssala við hinn.
Yfirleitt voru fáir á ferli í þvottahúsinu. Ein og ein keðjureykjandi spænsk húsmóðir á stangli eða hipsterar frá norður-Evrópu sem litu öðru hverju skelfdir í áttina til mín en létu mig í friði að öðru leiti. Húðlitur pabba hafði milljón sinnum bjargað mér frá innihaldslausum samræðum um það hversu ömurlegt lífið væri „heima“ og hvað það væri frábært að þurfa aðeins að borga tíu evrur fyrir að fara út að borða hérna suðurfrá.
Núna sat ég aleinn í á lökkuðum trébekknum og hvíldi annan olnbogann í gluggakistunni. Mér leið miklu betur. Hafði öðlast hlutverk í lífinu. Ég var mjúkur. Ekki bara af bjórnum. Ég var dúnmjúkur norrænn nútímamaður sem þvoði þvott meðan konan svaf úr sér þunglyndið. Ég var meðaljón sem rétt tórði í tónlistarskóla og hélt sér uppi á norrænum atvinnuleysisbótum í suðrænni borg yfir sumartímann.
Ég stóð upp og speglaði mig í rispuðum kaffisjálfssalanum um leið og ég hlustaði á evru detta inn í hann og setja ferli í gang sem endaði óhjákvæmilega með heitu kaffi í plastbolla.
Ég settist aftur með plastmálið, skimaði eftir lesefni í gluggakistunni og fann að mér var farið að líka ágætlega við sjálfan mig. Kannski var ég hreint ekki svo vitlaus eftir allt saman. Jafnvel glúrinn. Séður.
Allt í einu var hurðinni hrundið upp. Skolhærð kona á mínum aldri gekk ákveðin inn á flísalagt gólfið með þvott í stórum hvítum plastpoka. Hún var með strákpjakk í eftirdragi. Á að giska fjögurra eða fimm ára, ljóshærðan með skörp brún augu. Af tungumálinu sem hún bunaði út úr sér að dæma voru þau frá einhverju landi í Austur-Evrópu.
Krakkinn fór strax að sýna mér óþarflega mikinn áhuga. Settist við hliðina á mér og reyndi að sjá hvað ég væri að lesa í spænskum dreifimiða sem ég skildi ekki orði í. Fyrst þóttist ég ekki taka eftir honum en þá fór hann að babla eitthvað á óskiljanlegu máli. Ég færðist kurteislega undan, mjakaði mér í áttina að kaffisalanum en það sló barnið ekki út af laginu. Loks kallaði mamman drenginn til sín og brosti afsakandi í áttina að mér. Mér létti. Ég kunni ekkert á börn. Talar einhver við ókunnug börn nema geðsjúklingar? Myndi mamman ekki halda að ég væri bölvaður barnníðingur ef ég yrti á hann. Eða kannski vissu svona austur-evrópskar konur ekkert um svoleiðis. Með allt önnur viðmið en konurnar heima. Engin eðlilega mörk til eftir að múrinn hrundi til grunna, bara allir að ríða öllu sem hreyfðist og allt í ógeði og rugli. Ábyggilega ástæðan fyrir því að hún hafði flúið hingað til Barselóna með krakkann.
Nú nálgaðist drengurinn aftur. Hann prílaði upp á hinn enda bekkjarins og góndi forvitinn á mig, stórum brúnum augum. Kannski saknaði hann pabba síns. Ef hann vissi þá hvað það væri að eiga pabba eða alvöru fjölskyldu. Ég ákvað að reyna aðra aðferð til að losna við hann. Ég fór að góna frekjulega á móti. Það var ekki góð hugmynd. Hann brosti og færði sig nær.
Það var þá sem ég tók eftir blóðinu. Fyrst hélt ég að þetta væru bara óhreinindi undan kvikum barnaskóm. Svo sá ég að þetta voru horblandaðir blóðtaumar. Krakkinn hafði skilið eftir slímugar klessur út um allan bekkinn. Í sömu mund tók mamman eftir því á hvað var að horfa. Hún henti frá sér þvottakörfu og tók til við að þrífa bekkinn með pappírsþurrkum sem hún dró upp úr skítugri beltisbuddu. Þurrkurnar lituðust um leið og fyrr en varði var ruslakarfan við enda bekkjarins yfirfull af blóðugum pappír. Ég þokaði mér ennþá fjær. Fyrr en varði var ég kominn alveg út á hinn enda bekksins.
Blóðnasir drengsins jukust ef eitthvað var. Nú lituðu stakir dropar beinhvítar gólfflísarnar. Mamman afsakaði sig á þessu hrognamáli sínu en samt var eins og henni fyndist þetta ekkert tiltökumál. Svona væri þetta bara. Svona átti fullorðið fólk að sætta sig við. Ég fann ógeðið magnast upp í mér. Ég átti auðvitað að vorkenna þeim en þetta var bara svo mikill viðbjóður. Ég varð að gera eitthvað. Segja eitthvað.
Hospital, sagði ég og benti á krakkann. Af hverju farið þið ekki til læknis?
Mamman brosti og kinkaði kolli, bablandi einhverja vitleysu. Fannst sjálfsagt að ég væri að gera of mikið úr þessu, að þetta kæmi mér í raun ekki við.
Hún snýtti stráknum aftur og lét þurrkuna falla á gólfið því ruslakarfan tók ekki við meiru.
Krakkinn brosti og teygði fram skítuga fingur eins og til að lýsa því yfir að hann ætlaði að nálgast mig aftur. Snerta mig.
Ég rétti úr mér og horfði í hina áttina. Teygði hálsinn þangað til að ég sá móta fyrir spegilmynd minni í gljáfægðum kaffisjálfssalanum. Gat verið að hárið væri farið að þynnast, kollvikin að hækka?
Nú fann ég að krakkinn var kominn alveg upp að bakinu á mér. Eftir augnablik myndi hann snerta mig og skilja eftir blóðug för á hvítum Sigurrósarbolnum. Í þetta sinn ætlaði ég að láta eins og hann væri ekki til.
Sama hvað.
Birtist fyrst í TMM vorið 2013.