Um Þórarinn

Pönkari, götumálari, skiltamálari, myndskreytir, vefsmiður, rithöfundur, fyrirlesari og loks leiðsögumaður um hálendi Íslands …

Þórarinn Leifsson  fæddist í Reykjavík árið 1966 en ólst upp að hluta til í Kaupmannahöfn þar sem fjölskyldan dvaldist við nám og störf í nokkur ár. Eftir skilnað foreldra var drengurinn sendur í sveit á Íslandi þar sem hann vann við bústörf frá níu ára aldri.

Á táningsaldri var Þórarinn pönkari og síðan götumálari í Vestur-Evrópu. Flökkulífið nýttist  löngu síðar í skáldævisögunni Götumálarinn. Eftir flakkið stundaði hann nám í Myndlistarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan úr málaradeild vorið 1989. Á fyrstu árunum eftir námið vann Þórarinn mest megnis við myndskreytingar af ýmsu tagi þar til listamaðurinn fékk loks tölvudellu og vann í framhaldi við vefsmiður og skjáhönnun í heilan áratug.

Það var svo ekki fyrr en hann gafst upp á að myndskreyta handrit eftir aðra að Þórarinn skrifaði sína fyrstu bók, Leyndarmálið hans pabba, haustið 2017. Gagnrýnendur og ungir lesendur héldu vart vatni yfir ríkulega myndskreyttri sögu af mannætupabba og meðvirkri fjölskyldu hans. Bókin var fljótlega þýdd á þýsku og dönsku. Í kjölfarið komu útgáfur í Noregi, Finnlandi og Færeyjum. Loks mun ítalska forlagið Salani gefa bókina út vorið 2022.

Þórarinn hefur sent frá sér ný verk á tveggja til þriggja ára fresti síðan þá. Sumar þessar sögur hafa unnið til verðlauna og Maðurinn sem hataði börn var tilnefnd til Norrænu bókmentaverðlaunanna árið 2015. Bókasafn Ömmu Huldar er kannski víðförlasta útgáfan fram að þessu, enda hefur hún verið gefin út í Danmörku, Eistlandi, Noregi og á Ítalíu.

Á seinni árum hafa verk Þórarins smám saman orðið tilraunakenndari, myndskreytingar hafa vikið fyrir lengri textum og sögurnar frekar ætlaðar eldri lesendum. Síðasta skáldsaga Þórarinns, Út að drepa túrista, er öðrum þræði glæpasaga fyrir fullorðna en einnig svipmynd af íslenskri ferðaþjónustu um það leiti sem kórónuveiran lokaði landinu.

Það má fá ágætis yfirsýn yfir helstu bækur höfundar á þessari síðu hér.

Þórarinn hefur búið og starfað erlendis drjúgan hluta æfinnar. Fyrst í  Kaupmannahöfn, síðan Barselona og Berlín. Þetta hefur síðan leitt af sér tungumálakunnáttu sem hefur skilað sér í núverandi hlutastarfi hans sem leiðsögumaður. 

Þórarinn Leifsson býr núna í Reykjavík. Hann á tvö börn úr tveimur samböndum; Salvöru Gullbrá (1992) og Leif Ottó (2011). Vorið 2020 fæddist dótturdótturin, Kolka Margrét Bergsdóttir.