Bókaskrif í skugga veirunnar

Haustið 2017 sogaðist ég inn í túrisman eins og svo margir landar mínir því tekjurnar voru umtalsvert meiri en ég hafði átt að venjast sem rithöfundur. Þannig kom það til að landið sem ég hafði snúið baki við megnið af ævinni opnaðist fyrir mér á nýjan hátt, svolítið eins og erfið og stórhættuleg ný kærasta með geðhvarfasýki. Þessi kærasta reyndi að drepa mig nokkrum sinnum í viku á þjóðvegum landsins en gat síðan allt í einu tekið upp á því að kyssa mig og kjassa í miðjum febrúar – því ekkert er eins óútreiknanlegt og íslensk veðrátta. Ég var lentur í haturs og ástarsambandi við landið sem ól mig.

Á sama tíma var ég í svipuðu sambandi við ferðamennina sem ég ferjaði milli staða. Hvaða fólk var þetta? Af hverju voru þau að koma hingað? Af hverju var dapra konan ein á ferð? Af hverju talaði þessi maður svona illa um maka sinn? Og svo  framvegis. Ég fékk fljótlega bók í magann en sá um leið að það var nánast óvinnandi verk að setjast niður og skrifa skáldssögu um veruleika sem ég hrærðist í á hverjum degi. Ég var allt of nálægt viðfangsefninu og þar að auki dauðþreyttur flest kvöld. Ég varð að láta smærri verkefni nægja í bili. Eftir fyrsta árið á þjóðveginum datt mér í hug að gera ljósmyndabók um túrisma. Ég tók mynd af sama bekknum með mismundandi ferðamönum á Geysi sjötíu og sex sinnum á einu ári og skeytti við textum úr dagbók. Þetta voru litlar smásögur um fjölþjóðlegan mannlífspott.

Ég gerði nokkrar atlögur að skáldsögu. Ísland er miskunnarlaust og ferðalangar stöðugt minntir á hversu fallvalt lífið er. Á veturna þegar farfuglarnir eru fjarri sveimar annarlegur doði yfir landsslaginu, líkt og í kirkjugarði. Þannig lá glæpasaga beint við og samfélag innan í rútu leiddi hugan fljótlega að Agethu Christie með tilheyrandi fléttum. En um leið og ég settist niður til að skrifa lenti ég í basli með að staðsetja rútuna í tíma og rúmi og réttlæta að hópurinn færi í gegnum fjölmennustu ferðamannastaði landsins án þess að lögreglan hefði áhyggjur af því að morðinginn léti sig einfaldlega hverfa úr hópnum.

Veirufárið í upphafi árs 2020 kom því eins og himnasending. Nú var ég kominn með rétta sviðið fyrir glæpasögu. Þessa skrítnu viku í miðjum mars sem ég lifði sjálfur. Ég fékk heilt ár án ferðamanna þar sem ég gat meir eða minna einbeitt mér að skrifum. Þar að auki hafði ég nógu mikla fjarlægð frá viðfangsefninu til að geta verið kvikindislegur við ferðamennina.

Á hverjum degi er einhverstaðar túristi að brenna sig í hver, detta ofan í gljúfur, drukkna í brotsjó í Black Beach eða fótbrotna í hálku upp við Sólheimajökul. Þótt leiðsögumenn beri ekki lagalega ábyrgð á fullorðnu fólki þá eru þeir sífellt hræddir við að fólk slasist eða verði eftir einhverstaðar. Sannleikurinn er sá að nokkrir ferðamenn slasast eða deyja á hverju ári án þess að íslendingar gefi því mikinn gaum. Fjöldamorðingi í smárútu er því aðeins viðbót við ótal atriði sem góður leiðsögumaður þarf að hafa í huga.