Þú færð aldrei nein fokking ritlaun!

Mig langaði til að skrifa lýsingu á ársfundi Rithöfundasambands Íslands fyrir  Subbukarlavefinn.  Fyrst datt mér í hug að nálgast verkefnið á svipaðan hátt og Hunter S. Thompson gerði í Fear and Loathing in las Vegas. Ég gæti kallað greinina Skrifandi skáld í borg óttans eða eitthvað í þeim dúr. Svolítið unggæðingslegt kannski. Og þegar á reyndi gekk þetta ekki alveg upp.

(Birtist í Subbukörlum og sóðaritum vorið 2012)

Á meðan Hunter S. ruddist ásamt „lögfræðingi“ sínum á opnum blæjubíl í gegnum Nevada-eyðimörkina í meskalínvímu þá lullaði ég á löglegum hraða eftir Sæbrautinni á kynlausasta bíl allra tíma: stálgráum Ford Fókus Steisjon. Og það næsta sem ég komst neyslu eiturlyfja þennan dag var grænt te og engifer í klámgrænum brúsa sem konan mín hafði keypt dýrum dómi í Kringlunni og ég saup nú á til að bæla niður þrálátan smábarnahósta sem ég hafði nælt mér í á Barnaspítala Hringsins. Þessi kverkaskítur var búinn að angra mig í viku.

Þegar ég beygði út af Langholtsvegi og Gunnarshús blasti við efst á Dyngjuveginum datt mér í hug að bræða saman frásögn af ársfundinum og stuttum bút úr Meistaranum og Margarítu eftir Búlkakov. Einhvernveginn svona:

„Ég var að stimpast í Gunnarshúsi í tvo tíma í gær“.
„Og hvernig gekk?“
„Ég krækti mér í viku á Eyrarbakka.“
„Vel af sér vikið!“

En þegar ég var búinn að leggja Fókusnum og sá rithöfundana reika líkt og uppvakninga í átt að Gunnarshúsi sótti að mér styggð.  Þessi stílæfing myndi aldrei gera sig. Ég var ekkert reiður út í mitt stéttarfélag, að minnsta kosti ekki eins og Bulgakov út í MASOLIT í bók sinni um Meistarann og Margarítu.

Fyrir framan Gunnarshús var Ragnheiður gjaldkeri að stugga nokkrum reykingamönnum niður fyrir húsið. Í anddyrinu tók ég eftir málverki af Thor Vilhjálmssyni á hægri vegg í örlítið stífum impressjónístískum stíl. Á veggnum andspænis gömlu kempunni flæddi Gunnar Gunnarsson út úr stórum ramma í frekar væmnum litavaðal. Hann var mjög ólíkur þeim svanga og örvæntingarfulla Gunnari sem ég sá fyrir mér þegar ég dvaldi í gestaíbúðinni um jólin 2007. Þá hafði ég stundum heyrt hann ganga um um gólf og skella hurðum. Málverkið sýndi Gunnar sællegan og feitan eins og smábarn sem er búið að fá of stóran skammt af mjólkurdufti. Kannski var hann bara búinn að finna sig í hruninu, karlinn. Lenda.

Inni í fundarsalnum var búið að koma fyrir stólaröðum undir vökulu augnaráði um það bil fimmtíu rithöfunda í klossuðum trérömmum sem héngu á burðarveggnum hægra megin þegar inn var komið.

Ég skimaði yfir stólaraðirnar og The usual suspects. Sá ekki betur en Jón Kalman væri örlítið kalinn á nefinu eftir snjóhríðina í síðustu bókum sínum. Dauft glott lék um varir hans eins og hann hefði á tilfinningunni að ýmislegt smáfyndið ætti eftir að gerast þetta kvöld. Sindri Freysson heilsaði mér, sömuleiðis kíminn á svip. Guttesen var klæddur í svörtu frá toppi til táar, hann heilsaði mér með virktum eins og ég væri mættur í eigin réttarhöld. Auður Ava og Sigurbjörg Þrastar voru þarna einhversstaðar á sveimi. Einnig Börkur Gunnarsson, Magnea Matt, Olga Guðrún, Sölvi Björn og Sigurður A. Magnússon. Ég kannaðist við um það bil helminginn af þessu fólki. Í innri salnum var slæðingur af eldri félagsmönnum sem ég kunni ekki nein deili á eða sá ekki fyrir myndarlegum tréstiga sem klauf rýmið í tvennt og hringaði sig upp á efri hæðina þar sem skrifstofan var staðsett ásamt setustofu og ýmsum smærri herbergjum.

Marló skáldkona kom aðvífandi um leið og ég fékk mér sæti. Hún lék á alls oddi, sagðist vera í karlaleit sem var svolítið skemmtileg yfirlýsing á þessari samkomu sem minnti einna helst á strangtrúað guðshús. Svolítið eins og að leita að stífum lim í líkhúsi.

Fundurinn fór rólega af stað undir styrkri stjórn Karl Ágústs Spaugstofumanns og Ragnheiðar gjaldkera. Ársskýrslunni var varpað upp á lítið tjald í horni neðri salarins. Til hliðar við það hafði verið komið fyrir beinhvítu púlti sem skyggði á málverk eftir Karl Kvaran. Þetta var verk frá seinni árum listamannsins sem einkenndist af hreinum flötum í breiðum sveigðum línum.
Þurrum tölum úr ársskýrslunni var varpað á hvítt tjaldið. Tekjur, útgjöld og ýmsir sjóðir blöstu við svart á hvítu. Allt í sómanum í peningamálum. Stuttar umræður um húskofa á Suðurlandi sem enginn skrifandi skepna dreif í vegna hækkandi bensínkostnaðar. Sessunautur minn, glaðbeittur höfundur skáldsagna, hnippti flissandi í mig annað slagið til að vekja athygli á ýmsu spaugilegu sem bar fyrir augu og eyru.

Kristín formaður hélt stutta en snaggaralega tölu, fór yfir útrásarárið í fangi þýska heimsveldissins.
Við klöppuðum fyrir nýjum Barnabókaverðlaununum sem norrænu ráðherrarnir í Osló voru að koma sér saman um rétt í þessu á meðan þeir sungu fyrir Breiðavík.

Það var um þetta leiti sem gamanið fór að kárna. Skáld á miðjum aldri tók sér stöðu í pontu. Skáldið var með kúluhatt og minnti  á illmenni í breskri glæpasögu, jafnvel durtinn Bill Sikes í Oliver Twist.
Sjitt, hugsaði ég. Hér er maður bara kominn aftur á nítjándu öld sísona án þess svo mikið sem depla auga.
Skáldið fór mikinn, það lagði hrammana á púltið og ók sér í takt við ræðuna. Þetta var stórt skáld og skyndilega var öllum viðstöddum ljóst að málverki Karls Kvarans var ógnað þegar mikilmennið nuddaði bakinu utan í það. Sem betur fer var abstrakt málverkið eftir Kristján Davíðsson komið í skjól – hátt uppi á veggnum fyrir ofan tréstigann – utan seilingar reiðra skálda.

Skáldinu með kúluhattinn þótti lítið fútt í þessu hjá okkur. Rithöfundaþingin í gamla daga voru víst miklu skemmtilegri. Síðan fór skáldið að væna formann sambandsins um siðleysu fyrir að þiggja verktakalaun. Einhvernveginn þvældist fyrirbærið virðisaukaskattur inn í þá umræðu þannig að einstaka hlátrasköll gullu við í salnum.
Flestir létu sér þetta í léttu rúmi liggja en nokkrir af eldri meðlimum RSÍ tóku að þrútna í framan af reiði og pirringi. Formanninum var auðsýnilega brugðið, enda langt frá því skemmtilegt að sitja undir ákæru frá stóra manninum með kúluhattinn. jcgcjf
Skyndilega stökk einn af eldri félagsmönnum RSÍ á fætur. Þetta var glettinn náungi með áberandi skærgult bindi. Hann heilsaði nokkrum fundarmanna með báðum höndum eins og trúboði á fjöldasamkomu  um leið og hann sprangaði í átt að útganginum. „Þetta er nóg!“ hló hann um leið og hann hvarf úr salnum. „Þetta er nóg!“

Þusið í manninum með kúluhattinn hélt áfram. Og nú fóru einhverjir að taka undir með honum í salnum. Þá helst ljóshærður náungi í köflóttri fráhnepptri skyrtu. Hann var með eilítið gjallandi talanda og hækkaði róminn eftir sem á leið á fundinn þar til hann var nánast farinn að öskra yfir hausamótum félagsmanna.

Náunginn í köflóttu skyrtunni og skáldið með kúluhattinn vildu vita hvernig félagsmenn RSÍ væru valdir í Skáld í skólum. Skáld í skólum er verkefni sem gengur út á það að senda íslenska rithöfunda í grunnskóla landsins og láta þá kynna verk sín fyrir ungviðinu. Mjög verðugt verkefni en ekkert sérstaklega vel launað eðli málsins samkvæmt. Skólar geta einfaldlega ekki borgað mikið fyrir svona uppákomur.

Í því ljósi var hitinn sem var kominn í þessa tvo félagsmenn svolítið einkennilegur. Ég rifjaði upp þegar mér var dömpað úr Skáld í skólum. Ég átti að hafa lagt kennara í ákveðnum skóla í úthverfi Reykjavíkur í einelti með því að benda á hroðalega vondan kennara í bók eftir mig og spyrja krakkana hvort ekki væri einhver sambærilegur í skólanum. Þetta þótti ekkert sniðugt hjá mér og í framhaldi hringdi skólastjórinn alveg brjálaður í Ragnheiði gjaldkera. Ég hringdi síðan í skólastjórann og bað hann afsökunar. Hélt honum eins lengi og ég gat í símanum og endurtók að ég „bæðist innilega velvirðingar á þessu leiðinlega atviki“ alveg þangað til að ég fann að hann var farinn að ókyrrast á línunni. Orðinn pirraður. Langaði sjálfsagt heim að hrella konuna sína. Látið mig þekkja svona kvenhatandi reiðifíkla. Ég skrifa verðlaunaðar barnabækur troðfullar af þeim.

Allavega. Ekkert meira Skáld í skólum fyrir mig þann daginn. Konan mín var auðvitað dauðfegin. Það hafði engu munað að hún missti fóstur við að lyfta stól upp á svið í skóla úti á landi. Börnin voru samt alltaf yndisleg og stundum gefandi að hitta kennara og skólastjóra sem fannst greinilega vænt um nemendur sína, dag eftir dag, kynslóð eftir kynslóð.

Allt í einu hlakkaði í mér. Auðvitað var gráupplagt að senda þessa tvo vandræðagemsa í þennan tiltekna skóla. Skáldið með kúluhattinn og náungann í köflóttu skyrtunni. Hvers vegna sá það enginn? Aðalsteinn Ásberg í stjórn RSÍ virtist ekki sjá það – honum stökk ekki bros þar sem hann stóð bísperrtur og sló flötum lófa ofan á púltið og útskýrði hvernig Skáld í skólum væri hugsað. Loks kom Pétur Gunnarsson í pontu og sallaði niður rithöfundaþingin, sagði eitthvað á leið að þetta hefðu verið hálfgerðar skrípasamkomur og veikburða undanfari RSÍ.

Náunginn í köflóttu skyrtunni kom í pontu og veifaði félagatali RSÍ framan í okkur eins og sönnunargagni. Líkt og í því leyndust stórkostlegar opinberanir, klámmyndir af íslenskum rithöfundum teknum í dýflissu þýska sendiráðsins í Þingholtunum.  Hann sló félagatalinu ógnandi í púltið. Fletti í því reiðilega. En síðan reyndist hann ekki vera með neitt handbært nema þá staðreynd að sami sextíu manna hópurinn væri í áskrift að listamannlaunum. Þá sérstaklega þeir sem fengu verðlaun. Eins og elítísmi væri glænýtt fyrirbæri í listasögunni. Náunginn í köflóttu skyrtunni klykkti út með því að lýsa yfir að hann þyrfti sennilega að „bíða í fimmtán ár “ áður en hann fengi ritlaun. Eins og ritstörf væru eilíf biðstaða, svipað og móttaka hjá heimilislækni.

Næst tók til máls ung kona sem mér fannst ég kannast við úr pólitík. Hún sagði nokkur orð um ungt fólk og rithöfundasambandið. Ég leit snöggt yfir öxlina á mér í átt að anddyrinu. Smeykur um að Breiðavík myndi allt í einu birtast í gættinni með alvæpni. „Í dag munuð þið deyja, marxístar!“ Við vorum svo berskjölduð þarna efst á Dyngjuveginum. Svo saklaus.

Sirkusnum lauk með því að afhent voru verðlaun kennd við Fjölís. Auður Ava og Bergsveinn Birgisson voru verðlaunuð og líka þriðji höfundurinn sem ég kom ekki fyrir mig. Ég stóð mig að því að tauta í barminn eins og hneykslaður smáborgari eitthvað á þá leið að þetta væri þó að minnsta kosti ekki samsæri. Þau ættu þetta nú skilið. Auður Ava sagði viðeigandi brandara um samsærisjúka íslenska þjóð.

Fundi var slitið og boðið upp á rauðvín og gos. Yfir þvögunni sem myndaðist við vínflöskurnar heyrðist náunginn í köflóttu skyrtunni gjamma að hann hefði heyrt að það væri til siðs að drekka upp félagsgjöldin á ársfundi RSÍ. Hvað sem er hæft í því þá er rauðvínið alltaf vel valið í Gunnarshúsi. Ég lagði að vísu ekki í nema eitt glas í þetta sinn því ég nennti ekki að skilja bílinn eftir. Snéri mér þess í stað að Egils Kristal í pissgulum plastflöskum. Síðan rambaði ég út í garð í leit að félagsskap reykingamanna. Áhugaverðasta fólkið hættir aldrei að reykja.
Útsýnið yfir Reykjavík var fallegt frá eldhúströppum RSÍ. Ég var að segja Berki Gunnarsyni einhverja langloku um reykingar og hversu auðvelt væri að hætta þeim þegar Valdi bóksali birtist í gættinni með stórskemmtilega klámvísu á takteinunum. Ég dauðsé eftir að hafa ekki skrifað hana hjá mér. Seint um síðir drattaðist ég aftur inn í stofu, fór að langa heim en ákvað að fá mér meira Egils Kristal á meðan ég hugsaði málið.
Útundan mér sá ég hvar nokkrir þýðendur læddust fram í forstofu til að núa saman nefjum í nefnd undir vökulum augum Thors Vilhjálmssonar og Gunnars Gunnarssonar.
Ég fór að rabba við kunningja minn, rithöfund sem var að safna skeggi. Hann ætlaði að þiggja far með mér niður í bæ fyrst ég væri ekki að drekka.
Ætlaði samt að fá sér eitt rauðvínsglas áður og heilsa upp á Bergsveinn Birgisson sem var nýkominn í hús af vel heppnaðri generalprufu á leikgerð upp úr bók eftir sig. Ég var búinn að ræða við Bergsvein í fimm mínútur þegar ég áttaði mig á því að hann hélt að ég væri Tolli Morthens. Spurði hvort ég væri ekki alltaf að mála. Allt í einu var sitúasjónin orðin þannig að skeggjaði rithöfundurinn vildi tæla Bergsvein Birgisson með sér á næturklúbb í miðborginni og ég átti að vera bílstjórinn. Við tókum nokkra snúninga þar sem Stórfiskurinn frá Bergen var næstum kominn fram í anddyri en flæktist þá í nýrri kjaftatörn. Loks gafst ég upp á þessu.

„Hvar er konan þín? spurði Krístín formaður þegar ég fékk mér meira Egils Kristal. „Þú náttúrulega sérð um að mæta fyrir ykkur bæði núna?“ bætti hún við.
„Neinei,“ sagði ég og dró seiminn. „Auður vildi vera heima að horfa á Desperate Housewives,“
„Ég trúiessuekki!“ gall í höfundi Stellu Blomkvist bókanna sem átti leið hjá rétt í þessu.
„Erum við ekki öll með svona perversjónir? spurði ég og snéri mér aftur að skeggjaða rithöfundinum sem var ennþá að hringsóla í kringum Bergsvein Birgisson.
„Jú,“ sagði sá skeggjaði hikandi. Og hvíslaði síðan í hálfum hljóðum: „House. Ég horfi á House.“
Ég kinkaði kolli og reyndi að muna eftir uppáhaldsþætti til að þetta kæmi ekki út eins og ég væri að reyna að setja mig á háan hest. En ég var alveg tómur. Smagsdommerne á DR2 kannski. Nei. Það var einhvernveginn of snobbað og fínt. Hvern andskotann horfði ég á? Kannski allt bara. Ég zappaði milli stöðva og hafði ekki hugmynd um hvað var hvað. Öll tungumál í einum graut í hausnum á mér.

„Sæll Þórarinn“. Náunginn í köflóttu skyrtunni stóð þétt upp við mig. Andlitið á honum breiðleit útgáfa af Magnúsi Scheving í Latabæ. Talandinn virtist svipaður. Svona rat-at-at-at-at hrynjandi. Hress, hress, hress. Kannski var til bæjarfélag einhversstaðar þar sem allir töluðu eins og íþróttaálfurinn.
„Ég var einmitt að glugga í Bókasafn ömmu Huldar,“ gaggaði hann. „Hún var mjög svona … á góðri íslensku. Ég hitti nú … eða var að reyna að troða mér inn á danska útgefanda þinn … Huginn … “
„Hann er færeyskur.“
„Ha?“
„Huginn Eide. Hann er Færeyingur.“
„Er það já?“
„Já.“
„Ertu að skrifa núna?“

Þú færð aldrei ritlaun, hugsaði ég. Þú færð aldrei nein fokking ritlaun. Over my dead body. Ég ætla beint heim á eftir að hringja í alla sem ég þekki í 101 latté klíkunni. Senda einkaskilaboð á alla sem ég þekki á Feisbúkk sem hafa einhvern tíman stigið inn fyrir 200 metra radíusinn við Háskóla Íslands. Senda reykmerki inn á Ölstofuna. Svohljóðandi: Hey þið! Glaðlegi ljóshærði náunginn í fráhnepptu köflóttu skyrtunni á á ekki að fá ritlaun. Capiche? Never ever!

„Já ég er að … ég var með bók um jólin,“ tafsaði ég.
„Unglingabók? Barnabók?“
„Ég … hérna … humm …“.

Maður á miðjum aldri bjargaði mér út úr samtalinu. Mér fannst ég kannast við svipinn á honum af vefsíðu bókaforlags sem staðsett we einhvers staðar fyrir norðan heiðar. Já, alveg rétt. Tengdamóðir mín þýddi einu sinni tjikk-litt bók fyrir þennan náunga. Sagan af samskiptum þeirra og deilur um kaup og kjör var ansi skemmtileg og ég kæfði glott í fæðingu.  Hvernig var þetta aftur? Tvær sjóræningjakerlingar af hippakynslóðinni áttu fund með útgefanda utan af landi á Kaffi Ólíver í Reykjavík. Deilt var um kaup og kjör –  gat verið að íslenski textinn hefði verið örlítið styttri en verkið á frummálinu og tjikk-littið í ofanálag á alltof kjarnyrtri íslensku? Mennirnir tveir kvöddu mig með virktum og soguðust niður í Hvalfjarðargöngin.

Þegar ég gekk út úr Gunnarshúsi var tilfinningin ekki ósvipuð því að yfirgefa nítjándu öldina. Sambland af söknuði og létti. Fyrir framan mig beið hundleiðinlegur stálgrár Ford Steisjon á kolólöglegum nagladekkjum. Allt í einu sá ég mig í anda á svörtu reiðhjóli í Berlín. Ég geystist á ofurhraða milli trjánna í Tiergarten.  Germanskur Teotoni til forna, svartklæddur að innan sem utan.

(Birtist í Subbukörlum og sóðaritum vorið 2012)

Skildu eftir svar