Út að drepa túrista – fyrsti kafli

Síðasta ferðin

Um miðjan mars 2020 var orðið sæmilega bjart úti og íbúar Reykjavíkur farnir að hlakka til vorsins eftir erfiðan vetur. Börnin löngu orðin þreytt á skítugum snjó og hálku sem hafði þakið höfuðborg Íslands síðan um jólin meðan atvinnubílstjórar sáu fram á að geta ef til vill klárað norðurljósatímabilið án þess að skauta út af þjóðveginum í stórhríð uppi á heiði.

Þótt Kórónuveiran væri á allra vörum voru flestir í hálfgerðri afneitun ennþá. Menn þóttu skrítnir ef þeir létu sjá sig með grímur á almannafæri og sóttkví var ennþá svolítið eins og heimspekileg hugmynd eða kenning. Það var ekki fyrr en ferðamönnum fór að fækka verulega og fyrstu smit greindust innanlands að Íslendingar neyddust til að taka veiruna frá Wuhan alvarlega. Samkomur voru takmarkaðar við hundrað manns og framhaldsskólum var lokað. Þjóðin var í hálfgerðu losti og bílaumferð í höfuðborginni ekki svipur hjá sjón. Þeir fyrstu til að finna fyrir raunverulegu atvinnuleysi voru lausráðnir verktakar í ferðaþjónustu. Túrar voru slegnar af, rútubílar teknir af númerum og leiðsögumönnum boðið að fara í ferðir á hálfum launum. 

Það var á þessu furðulega tímabili í miðjum marsmánuði að þeir Magnús og Kalman mættust fyrir framan kaffivélina í höfuðstöðvum Berserkja niðri á Granda í Vesturbæ Reykjavíkur. 

„Það er eins og maður sé búinn að bakka tíu ár aftur í tímann,“ sagði Kalman nógu hátt til að yfirgnæfa hávaðann í kaffivélini.

„Hvað áttu við?“ ansaði Magnús.

„Ég sá bara þrjá túrista fyrir framan Hallgrímskirkju og þeir voru allir með farangur á leið úr landi. Það var enginn á stoppi þrjú eða fjórtán. Svo var ein ómerkt rúta við Ráðhúsið.“

„Varstu í skoðunarferð?“

Kalman yppti öxlum. Berserkir höfði aflýst öllum ferðum dagana á undan en svo höfðu þeir félagar verið kallaðir út í fjögurra daga ferð um suðurströnd Íslands með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Túr sem kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Þeir vissu báðir að hann yrði ekki eins og hver annar. 

Þeir voru staddir á draslaralegri kaffistofu sem hýsti einnig skrifstofu sölufólksins og Siggu flotastjóra. Þunnur tréveggur með gluggum skildi þá frá stórum sal þar sem smárútur voru þrifnar eftir ferðir. Kalman leit yfir skrifborðin og fannst svæðið bera þess merki að hafa verið yfirgefið í skyndi. Svartur gervileðurstóll þveraði gangveginn milli skrifborða sem voru þakin sjúskuðum flatskjáum, kynningarbæklingum, einnota kúlupennum og umbúðum utan af samlokum. Í hinum enda herbergisins hafði einhver markaðsþenkjandi gert sig breiðan með því að krota með rauðum túss á hvíta töflu:

Skip … 20% vöxtur … Gullhringur … Snæfellsnes …

„Þeir ráku hana á þriðjudaginn,“ sagði Magnús og klóraði í skeggið.

„Ha?“

„Þessa pólsku sem sér um þrifin. Hún var fyrst til að fá bréfið frá Siggu.“

„Já þú meinar …“

Magnús var stór maður með myndarlega bjórvömb og alskegg. Fyrir utan handfrjálsa blátönn í eyra – einkenni allra atvinnubílstjóra – klæddist hann nær alltaf blágrárri lopapeysu sem gerði hann svolítið meinleysislegan í útliti þrátt fyrir gróft yfirbragð. Hann átti með réttu að vera hættur að vinna en eftirlaunin voru svo rýr að maðurinn hafði um fátt annað að velja en að keyra rútubíla á lúsarlaunum þrátt fyrir að honum væri ekkert allt of vel við erlenda ferðamenn. Það var nefnilega græðgi útlendinga í allskyns upplifanir sem ýtti honum út á þjóðveginn hvernig sem viðraði. Þegar Magnús horfðist í augu við dauðann í veðurspám sáu túristarnir fossa, pissustopp og gjafavörubúðir. Þegar hann keyrði á öfugum vegarhelmingi til að hafa eitthvað upp á að hlaupa þegar vindurinn reyndi að sópa rútunni út af, voru farþegarnir að úa og æja yfir krúttlegum íslenskum hestum sem þjöppuðu sér saman við vegbrúnina með rassinn upp í vindinn.

Kalman Pétur var ljóshærður og svolítið búlduleitur sláni um þrítugt sem klæddist nær alltaf dökkblárri hettuúlpu. Hann gat komið fólki fyrir sjónir sem yfirvegaður menntamaður eða óttalegur sauður – það fór svolítið eftir því hvaða augu horfðu á hann og úr hvaða menningarheimi. Kalman hafði verið næstum því áratug í sagnfræðinámi í háskólanum áður en hann dreif sig í leiðsögunám. Hins vegar hafði hann aldrei komið því í verk að afla sér aukinna ökuréttinda og gat því einungis starfað sem „sitjandi gæd“ eins og það var kallað þegar menn og konur voru að leiðsegja við hlið bílstjóra. Þetta var einmitt ástæða þess að þeir Magnús og Kalman enduðu nokkuð oft saman, þá helst undir merkjum Berserkja þar sem Magnús var orðinn fastur verktaki meðan Kalman kaus að vera í lausamennsku fyrir fjölmörg fyrirtæki í ferðaþjónustu milli þess sem hann týndi sér í að spila nettölvuleiki fram undir morgun.

„Ertu búinn að sjá veðurspána?“ spurði Kalman þegar þeir höfðu þagað saman í nokkrar sekúndur.

„Hún getur breyst. Það er ekki það versta.“

„Nú?“

„Við erum að fara út á Ummanum.“

„Ertu ekki að grínast?!“

Uminn var fimmtán ára gamall, nítján sæta beinskiptur Mercedes Benz Sprinter með einkennisnúmerinu UMM97. Smárúta þessi var komin á síðasta snúning og því einungis notuð í skutli innanbæjar.  Síðustu mánuði hafði hún staðið að mestu leyti óhreyfð í hálfgerðum felum innarlega á bílastæði Berserkja.

„Eigum við í alvöru að fara alla leið austur í Jökulsárlón og aftur heim á druslu sem rétt hangir saman á ryðblettum?“

„Tja …, Sigga má eiga það að hún reyndi að redda öðrum bíl, það er bara allt komið af númerum. Umminn gleymdist einfaldlega.“

„Og hvað er þetta?“ spurði Kalman og benti á vígalega ísöxi sem lá á borði þar sem Sigga var vön að raða vandlega merktum ferðagögnum í mismunandi plastbakka.

„Sigga,“ sagði Magnús. „Hún er búin að vera með leikmuni á heilanum síðan í haust.“

Kalman tók öxina upp og velti henni á milli lófanna. Hún var hálfgerður forngripur og svolítið þyngri en þær sem ferðamönnum voru afhentar í jöklaferðum. Gleiðtenntum mannbroddum af nýjustu gerð hafði verið vafið um axarhausinn. Best að segja sem minnst. Dótið myndi þvælast fyrir honum í upphafi ferðar en síðan myndi hann koma öxinni fyrir einhverstaðar aftur í svo lítið bæri á.

„Eigum við nóg af mannbroddum?“ spurði hann og lagði öxina aftur frá sér á borðið. Magnús lét vera að svara en fór að róta í plastkassa úti í horni. Mannbroddar úr gúmmíi höfðu verið flokkaðir í mismundandi stærðir; S, M eða L. Aldrei þessu vant var engin skortur á þessum einföldu hjálpartækjum, enda búið að aflýsa meirihluta ferða síðustu daga.

„Hvenær lendir vélin?“ spurði Kalman.

„Núna um þrjúleytið … og það versta er …“

Kalman beið eftir því að Magnús rétti aftur úr sér og kláraði setninguna.

„Það versta er að ég er í engri aðstöðu til að segja nei við þessum túr.“

„Ekki leigirðu ennþá í kjallaranum hjá Siggu og Óla?“

„Hvað á ég að gera? Ekki með leigusamning. Kostar helling að setja draslið í geymslu. Æ, þú veist hvernig þetta er …“

„Jamm,“ sagði Kalman og fann fyrir óþoli um leið og hann skilaði tómum bolla í vaskinn. Fjögurra daga ferð með Magnúsi í skítaveðri var ekki það sem hann langaði í einmitt núna. Hann ýtti upp hurðinni  og sneri sér við í gættinni.

„Hittast hérna klukkan tvö þá?“

Magnús kinkaði kolli og Kalman gekk áfram gegnum verkstæðið og út í hráslagalega Reykjavík á vetri sem virtist aldrei ætla að taka enda. Hann hneppti hettuúlpunni að sér og létti örlítið þegar tíu ára gamall Skódinn hóstaði þrisvar og hrökk í gang.