Götumálarinn – 1. Kafli

Mjólkurkaffi og 103 brandí innan seilingar og ég nokkuð ánægður með sjálfan mig. Horfði á barþjóninn hella í glasið meðan hann opnaði og lokaði munninum hljóðlaust. Hægt látbragðið og sérkennilegur kækurinn leiddu hugann að gúbbífiski. Herra gúbbífiskur var að gefa mér eld í sígarettuna þegar einhver klappaði á öxlina á mér.
„Komdu!“ sagði ókunnug rödd, rólega en ákveðið, á spænsku. Ég leit yfir öxlina. Löggan virtist hafa líkamnast úr reyknum á barnum. Ég svaraði engu heldur seig varlega niður af stólnum, greip tuðruna og elti þjón réttvísinnar út á bílaplanið um leið og ég velti fyrir mér hver í dauðanum hefði sagt til mín.
Við gengum beint í flasið á tveim félögum hans sem beindu að mér vélbyssum. Mér var umsvifalaust skellt með magann upp að bíl eins og í lélegri bíómynd. Ein löggan leitaði í vösunum og fann aleiguna: tvö hundruð peseta seðil og tíu sígarettur.
Svo sneru þeir mér við. Sá sem hafði sótt mig inn á barinn hélt á skammbyssu sem hann stakk ákveðið í magann á mér þannig að ég hrasaði afturábak að bílnum. Hinir tveir munduðu vélbyssurnar, við öllu búnir.  
„Nombre?“ gjammaði löggan með byssuna.
Furðulegt hvernig heilinn í mér virkaði. Stundum skildi ég heilu setningarnar á portúgölsku og spænsku, svo gat eitt lítið orð hökt í þýðingarvélinni í hausnum á mér og stöðvað allt – eins og prik í tannhjóli. Óttinn bræddi endanlega úr vélinni: Nombre? Hvað í fjandanum þýddi nombre? Átti ég að segja eitthvert númer? Kannski var þetta andstyggilegt afbrigði af rússneskri rúllettu. Hann myndi skjóta mig ef ég segði vitlaust númer.
Ég gjóaði augunum niður á byssuna. Venjuleg sexhleypa eins og götulöggurnar báru. Máð trésköftin gægðust yfirleitt aftan úr þeim á barnum, eins og þeir væru með rotna banana í rassvösunum.
Svitinn spratt fram á ennið þrátt fyrir kuldann. Spænskan mín var ekki upp á marga fiska þótt ég væri farinn að skilja ýmislegt. En nú reið á að bjarga sér.
„Jo … nó …“ byrjaði ég og sigldi í strand. Setningarnar vildu ekki út úr mér.
Byssumaðurinn glotti illkvittnislega. Þetta var glott fertugs manns sem hefur tækifæri til að skjóta nítján ára ungling í magann eftir tuttugu ár í löggunni í afskekktu skítaskuði. Loksins á uppleið. Hann benti með vinstri hendi á bringuna á sér meðan hægri þrýsti byssunni lengra inn í naflann á mér.
„Ég er Visente!“ Síðan benti hann á mig: „Tu nombre?“ Auðvitað! Nombre þýddi nafn. Ekki númer. Mér létti örlítið. Ég fann hvernig slaknaði á kjálkunum og brakaði í minnisstöðvunum.
„Þórarinn Leifsson!“ tafsaði ég.
Byssumaðurinn varð hvumsa og slakaði örlítið á byssuhendinni. „Documentos?“
Þetta orð skildi ég og rétti honum passann ofurvarlega úr innri vasanum á leðurjakkanum þar sem hann var ennþá eftir að lestarþjónninn hafði fengið að líta í hann áður en mér var hent út úr lestinni. Eins gott. Guð má vita hvað hefði gerst ef ég hefði þurft að teygja mig ofan í buxnastrenginn í leyniveskið eins og venjulega. Byssumaðurinn hefði fengið frábæra ástæðu til að skjóta mig. Hann hélt passanum upp að andlitinu með hægri hendinni meðan sú vinstri beindi hólkinum að mér. Nokkuð kæruleysislega, líkt og byssan væri leikfang en ekki hættulegt vopn.
„Hu? Ísland? Hvað er nú það? Porarinn … Leifsson?“
Ég ansaði ekki, löngu orðinn vanur því að Spánverjar læsu þorn sem pé.
Mennirnir með vélbyssurnar fóru að ókyrrast. Tvístigu eins og vonsviknir veiðihundar. Ég var ekki alveg nógu hættulegt eintak. Annar þeirra opnaði bíldyrnar með lausu hendinni og teygði sig eftir talstöð.
„Heyrðu, Visente. Eigum við ekki að hringja niður á stöð?“
Þetta skildi ég vel. Visente dæsti eins og frekur krakki sem er truflaður við leik. Tók við tækinu með semingi og þjösnaðist á takkaborðinu með þumalputta. Vægt suð heyrðist um leið og hann lyfti tækinu upp að kinninni og gelti inn í tólið: „Foringi! Við erum með grunsamlegan einstakling hérna. Gæti verið sá sem leitað er að. Skipti!“
„Ertu að meina liðhlaupann sem Kana… fíflin …“ ansaði þreytuleg rödd við undirleik suðsins í talstöðinni. Það voru einkennilegar þagnir inn á milli. „… voru að lýsa eftir? Talar hann … spænsku? Skipti!“
„Nei, foringi. Þykist að minnsta kosti ekki gera það. Gæti verið Kani.“
Auðvitað talaði ég ekki spænsku, eða íslensku ef því var að skipta, með hlaðna skammbyssu fyrir naflastreng.
„Geturðu lýst honum fyrir mér?“
„Ljós yfirlitum, aðeins meira en meðalmaður á hæð, í gallabuxum, leðurjakka og strigaskóm sem eru við það að detta í sundur. Hann er með svefnpoka í töskudruslu; eitthvað af skriffærum, bókum og eins konar teikniblokk. Umrenningur, eða þykist vera það. Já og svo er hann snoðaður. Var ég búinn að segja það? Eins og hermaður. Skipti.“
Daginn áður hafði ég farið til hárskera sem angaði af Óld spæs. Karlinn rúði af mér hárið og rakaði skeggið með gamaldags rakhníf sem hann brýndi á breiðu svörtu belti. Megnið af peningunum mínum fór í þessa dillu.
„Hu…“ malaði röddin í talstöðinni. „Gæti verið annar liðhlaupinn. Hvað með vegabréfið? Er það í lagi? Skipti.“
„Já, ég held það. Íslenskt vegabréf. Skipti.“
„Ís… hvað?“
„Íslandía. Skipti!“
„Visente! Í guðanna bænum! … krrr … Hvaða asnastrik … eru nú þetta? Skipti!“
Það var eins og vélbyssumennirnir hefðu verið að bíða eftir þessari athugasemd. Þeir öxluðu hólkana tvíræðir á svip. Sá sem hafði rétt Visente talstöðina glotti skakkt út í annað, hinn hristi hausinn.
„En foringi,“ emjaði Visente. „Hann er afar grunsamlegur. Skipti.“
Smástund leið áður en röddin svaraði, þreytulegri en áður: „Heyrðu mig nú … krrr … komdu með helvítið niður á stöð. Við skulum athuga hann betur. Skipti!“

Lögreglubíllinn ók ýlfrandi um rafmagnslausa borgina, blá ljósin blikkuðu frekjulega inn um glugga á búðum og veitingahúsum. Ég taldi í mig kjark til að spyrja lögguna sem sat við hliðina á mér um rafmagnsleysið. Þetta var unglingur, ekki mikið eldri en ég. Hann yppti öxlum áður en hann svaraði á bjagaðri ensku: „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rafmagnið fer hérna.“
Byssumaðurinn sneri upp á sig í framsætinu. „Ekki tala við fangann!“ gelti hann. Sessunautur minn dæsti þungt, bölvaði eitthvað í barminn og kveikti sér í sígarettu.

Ég var látinn bíða á bekk í dimmum ganginum á löggustöðinni, drungalegri byggingu frá tímum falangista. Unglingslöggan átti að fylgjast með mér meðan hinir eldri og reyndari létu sig hverfa inn á næstu krá. Hann fór fljótlega í síma sem hékk á veggnum og virtist gleyma mér. Það var ennþá rafmagnslaust og ég velti fyrir mér hvers vegna síminn virkaði þrátt fyrir það.
Mér var skítkalt. Hvergi er kaldara en í suðrænu landi uppi í fjöllum um miðjan vetur. Kuldinn nísti inn að beini, smaug alls staðar inn undir fötin. Vonlaust að klæða hann af sér. Dauft kertaljós barst frá hálfopnum dyrum að skrifstofu á miðjum ganginum. Tikk, takk, tikk, takk, heyrðist í gamalli ritvél einhvers staðar í kapp við malið í löggunni. Í hálfrökkrinu fór ég að hugsa um spænska rannsóknarréttinn og svo um borgarastyrjöldina. Var ég síðasta setningin í litríkri sögu Spánar, einn þarna á bekknum?
Ég ýtti frá mér þessum háfleygu hugsunum. Þetta yrði allt í lagi. Unglingurinn leit ekki út eins og hann biði eftir heimild til að leiða mig í aftöku. Í versta falli yrði ég lokaður inni þangað til peningar hefðu borist til að borga lestina út fyrir landamæri Spánar. Niðurlægjandi en ekki banvænt.
Nákvæmlega þetta hafði komið fyrir mig á fyrsta flakkinu árið áður. Eftir tvær gráar vikur hjá vinafólki í London hafði mér allt í einu dottið í hug að skipta síðasta ferðatékkanum og taka rútu þvert yfir Evrópu til Grikklands þar sem ég vann við að tína vínber í nokkra daga áður en ég lagði af stað á puttanum heim. Ég komst yfir Adríahaf og upp alla Ítalíu á sólarhring en var síðan gómaður af lestarverði í Sviss án miða og algjörlega auralaus. Löggan lokaði mig inni þangað til mamma sendi peninga fyrir rándýrum svefnvagni til Amsterdam þar sem flugvél til Íslands beið eftir mér. „Við getum ekki hleypt þér út á götuna með enga peninga í vasanum,“ sagði löggan. „Þú værir vís til að stela.“
Á leiðinni niður á lestarstöð höfðu löggurnar gert grín að því við annan fanga að mamma væri að beila mig út. Ég varð svo svekktur að ég drakk mig blindfullan á lestarstöðinni.
Hópur af interrail-aulum fylgdist með mér opna bjórdós þannig að froðan frussaðist framan í mig, sekúndubroti eftir að ég hafði lýst frati á þá með því að svara öllum spurningum þeirra út í hött. Heill svefnvagn af dekruðum skólakrökkum sprakk úr hlátri. Helvítis! Þvílíkur aulahrollur!

Það var hnippt í mig. Unglingurinn bjargaði mér upp úr þessum skelfilegu endurminningum. Hann fylgdi mér inn í litla gluggalausa skrifstofu sem angaði af sígarettureyk og kaffi.
Ótal vaxkerti vörpuðu löngum skuggum og settu draugalegan svip á tvo menn sem sátu hvor við sitt skrifborðið. Borðið í miðjunni var þakið skýrslum og pappírum en þó aðallega hýði utan af pípas: þurrkuðum og söltuðum sólblómafræjum sem sumir Spánverjar borðuðu í sífellu. Bak við það sat stór og feitur maður. Hann leit hægt upp úr vegabréfinu mínu og glotti kattarlega.
Við skrifborðið úti í horni húkti gamalmenni með fornfálega svarta ritvél fyrir framan sig. Það var hún sem ég hafði heyrt í frammi á gangi meðan ég beið. Ritvélin átti frekar heima á minjasafni en skrifstofu. Það sama átti við um gamla manninn.
„Bueno,“ dæsti feiti maðurinn og dró seiminn áður en hann hélt áfram á bjagaðri ensku: „Jæja félagi … ég sé að þú hefur þvælst hingað yfir frá Portúgal fyrir nokkrum vikum?“
„Já.“
Ég þekkti strax röddina úr talstöðinni. Þetta var sá sem löggan með byssuna hafði kallað foringja. Sjálfur lögreglustjórinn. Sérkennilegar þagnirnar urðu til þegar hann mokaði pípas upp í sig og spýtti hýðinu út aftur.
„Og á hvaða ferðalagi ertu?“
Ég útskýrði að ég hefði verið að spóka mig niðri í bæ þegar rafmagnið fór af borginni. Þá hafði ég stungið mér inn á barinn á lestarstöðinni og beðið eftir næstu lest. Næst vildi hann vita hvort ég ynni við eitthvað.
„Ég er í listaskóla … eða eiginlega í fríi …“
„Ætlarðu að verða listamaður?“
„Já.“
„Listamaður. Ertu svolítið merkilegt kvikindi?“
Ég beit í vörina. Gamli maðurinn tísti eitthvað á spænsku og kæfði hvellan hlátur með því að láta klingja í ritvélinni. Lögreglustjórinn endurtók spurninguna, smjattaði orðunum saman við hneturnar, ranghvolfdi augunum, ropaði og slengdi framan í mig næstu spurningu: „Og eiturlyf?“
„Ha?“
„Þú heyrðir hvað ég sagði. Óþarfi að setja upp þennan fávitasvip. Ertu með eiturlyf á þér?“
„Nei.“
„Ekki það?“ Hann horfði vantrúaður á mig og beið átekta eftir að ég segði eitthvað.
„Ísland er eyja, þangað berast ekki eiturlyf.“
„Islandia es una isla,“ át hann upp eftir mér á spænsku um leið og andlitið sprakk út í allsherjar brosgrettu. „Puuueees,“ blés hann. „Það er Ronda líka! Við erum lítil eyja í risastórri hrúgu af skít!“
Unglingslöggan og gamli maðurinn ráku upp hlátur og þessu var velt milli mannanna dálitla stund á eldsnöggri suður-spænsku með tilheyrandi flissi. Kliðurinn barst fram á ganginn þar sem brandarinn var endurtekinn. Hann bergmálaði á gráum veggjunum þangað til hann dó út einhvers staðar í fjarska.
„Bueno,“ sagði lögreglustjórinn loksins. „Ef þú ert listamaður skaltu fá að sanna það!“
Hann skipaði unglingnum að sækja auða pappírsörk og kúlupenna. Síðan hallaði hann sér eins langt fram yfir skrifborðið og vömbin leyfði og myndaði autt svæði á borðplötunni með því að ryðja til hliðar skýrslum og pípas-hýði með hreyfingu sem minnti á bringusund.
Að því loknu hallaði hann sér makindalega aftur í stólnum og kveikti sér í splunkunýrri Dúkados-sígarettu.
„Bueno, ungi listamaður,“ sagði hann og blés frá sér svörtum tóbaksreyknum. „Teiknaðu mig nú!“
Ég lagði blaðið á borðbrúnina og mundaði kúlupennann. Það er alls ekki auðvelt að teikna andlitsmynd upp úr þurru, án nokkurrar upphitunar. Töluvert auðveldara eftir nokkurra klukkustunda módelteikningu í skólanum.
Lögreglustjórinn gerði sig sætan í framan. Augun voru eins og tvær svitaperlur í stóru rauðbrúnu andlitinu. Nefið líktist uppþornaðri kartöflu. Kinnarnar loðnar melónur. Munnurinn var auðveldur: eitt strik ofan á þrjár undirhökur. Loks hárið, dökkt og klístrað af steikingarfitu og svefnleysi.
Ég var að ljúka við myndina þegar ég tók eftir þögninni sem umlék mig. Það eina sem heyrðist var krafsið í pennanum: Krs-krs-krs …
Ég leit upp. Fyrirmyndin reyndi að gægjast á blaðið. Gamli maðurinn var staðinn upp frá ritvélinni og horfði nú yfir hægri öxlina á mér, angandi af hvítlauksbrauði og rauðvíni. Vinstra megin við mig tvísté unglingslöggan með pókersvip áður en hún kvað upp dóm: „Þetta er bara ágætt hjá honum. Er það ekki, Garsía?“
„Ha? Jújú,“ svaraði gamli maðurinn dræmt.
„Má ég sjá!“ æpti lögreglustjórinn skyndilega og hrifsaði myndina til sín. „Á þetta skrímsli að vera ég? Nei, hættið nú alveg! Eftir hundrað ár kannski? Er þetta framtíðarmynd, ungi listamaður?“
Hann hafði rétt fyrir sér. Þetta var ekki góð teikning. Hún var alltof stíf og hlutföllin voru röng. En það var samt sem áður eitthvað í rödd lögreglustjórans sem sagði mér að ég hefði staðist prófið, út á hvað sem það gekk. Þessu til staðfestingar fór hann að skellihlæja. Hann hló lengi.
Þegar hann var búinn að jafna sig kveikti hann sér í annarri Dúkados, blés reyknum út í loftið og sagði: „Bueno, þú átt margt eftir ólært, ungi listamaður …“
„Já.“
„Ertu með einhverja peninga á þér?“
„Nei.“
„Ekki það nei? Það eru ekki margir nítján ára piltar að þvælast svona auralausir um heiminn. Kannski ætti ég að senda þig … hvar býrðu annars?“
Ég vissi ekki hvernig ég ætti að ansa svo að ég beið eftir að hann tæki af mér ómakið.
„Hvergi! Ekki satt? Gott og vel! Farðu nú á hótel eða eitthvað.“ Hann rétti unglingslöggunni vegabréfið mitt og skipaði honum að fara með mig út.
Þungu fargi var af mér létt. Við vorum hins vegar rétt komnir út á gang þegar fitubollan gelti á eftir okkur að við yrðum að snúa við. Nú lágu Danir í því! Hann ætlaði örugglega að senda mig í jólapakka með næstu flugvél til Íslands. Lögreglustjórinn horfði íhugull á mig eitt augnablik. Svo tók hann eyðublað, hripaði eitthvað á það og rétti unglingslöggunni.
„Hérna! Sjáðu til þess að listamaðurinn nái lestinni til Sevilla eða Algesíras, það er að minnsta kosti aðeins hlýrra þar! Við getum ekki látið svínið drepast úr kulda á götum Ronda! Þá koma helvítis kommúnistarnir frá Madríd og taka í lurginn á okkur! Er það ekki?“
„Jú, senjor.“
„Og hér eru tvö þúsund pesetar fyrir myndina. Segið svo að við í Ronda séum ekki kúltíverað fólk. Komdu honum út áður en ég skipti um skoðun!“
Ég trúði þessu varla. Hlýt að hafa verið hálfvitalegur á svipinn því að lögreglustjórinn grúfði sig ofan í undirhökuna og tísti: „Út með þig!“
Unglingslöggan fylgdi mér á lestarstöðina og keypti farmiða til Sevilla. Rétti mér miðann og vegabréfið áður en hann kvaddi að hermannasið. Gúbbífiskurinn bak við barinn virtist hálfhissa að sjá mig á lífi.
Þannig atvikaðist það að ég var sendur aftur til Sevilla eftir að hafa þvælst stefnulaust um Andalúsíu í nokkrar vikur. Það var eiginlega lögreglustjóranum í Ronda að þakka að ég kynntist málaraklíkunni í Sevilla.