„Út að drepa túrista“ í 12 tónum, daginn fyrir kosningar.

Út að drepa túrista

Út að drepa túrista verður dreift í bókabúðir í lok september. Þeir sem vilja forskot á sæluna geta mætt í útgáfuhófið í 12 tónum á Skólavörðustig klukkan 18-20, föstudaginn 24 september, daginn fyrir kosningar. Þar verður bókin á sérstöku kynningarverði og Þórarinn Leifsson mun árita. Það eru auðvitað allir velkomnir og þeir sem hafa starfað með höfundi í ferðaþjónustu alveg sérstaklega. Þessi bók er um ykkur. 

Út að drepa túrista er glæpasaga og ekki síður svipmynd af íslenskri ferðþjónustu um það leiti sem kórónaveiran lamaði öll ferðalög um ísland og heimsbyggðina, vorið 2020.

Nánar má lesa um bókina hér.

Lesið hugleiðingar höfundar um bókina hér

Lesið fyrsta kafla hér.

Bókaskrif í skugga veirunnar

Haustið 2017 sogaðist ég inn í túrisman eins og svo margir landar mínir því tekjurnar voru umtalsvert meiri en ég hafði átt að venjast sem rithöfundur. Þannig kom það til að landið sem ég hafði snúið baki við megnið af ævinni opnaðist fyrir mér á nýjan hátt, svolítið eins og erfið og stórhættuleg ný kærasta með geðhvarfasýki. Þessi kærasta reyndi að drepa mig nokkrum sinnum í viku á þjóðvegum landsins en gat síðan allt í einu tekið upp á því að kyssa mig og kjassa í miðjum febrúar – því ekkert er eins óútreiknanlegt og íslensk veðrátta. Ég var lentur í haturs og ástarsambandi við landið sem ól mig.

Á sama tíma var ég í svipuðu sambandi við ferðamennina sem ég ferjaði milli staða. Hvaða fólk var þetta? Af hverju voru þau að koma hingað? Af hverju var dapra konan ein á ferð? Af hverju talaði þessi maður svona illa um maka sinn? Og svo  framvegis. Ég fékk fljótlega bók í magann en sá um leið að það var nánast óvinnandi verk að setjast niður og skrifa skáldssögu um veruleika sem ég hrærðist í á hverjum degi. Ég var allt of nálægt viðfangsefninu og þar að auki dauðþreyttur flest kvöld. Ég varð að láta smærri verkefni nægja í bili. Eftir fyrsta árið á þjóðveginum datt mér í hug að gera ljósmyndabók um túrisma. Ég tók mynd af sama bekknum með mismundandi ferðamönum á Geysi sjötíu og sex sinnum á einu ári og skeytti við textum úr dagbók. Þetta voru litlar smásögur um fjölþjóðlegan mannlífspott.

Ég gerði nokkrar atlögur að skáldsögu. Ísland er miskunnarlaust og ferðalangar stöðugt minntir á hversu fallvalt lífið er. Á veturna þegar farfuglarnir eru fjarri sveimar annarlegur doði yfir landsslaginu, líkt og í kirkjugarði. Þannig lá glæpasaga beint við og samfélag innan í rútu leiddi hugan fljótlega að Agethu Christie með tilheyrandi fléttum. En um leið og ég settist niður til að skrifa lenti ég í basli með að staðsetja rútuna í tíma og rúmi og réttlæta að hópurinn færi í gegnum fjölmennustu ferðamannastaði landsins án þess að lögreglan hefði áhyggjur af því að morðinginn léti sig einfaldlega hverfa úr hópnum.

Veirufárið í upphafi árs 2020 kom því eins og himnasending. Nú var ég kominn með rétta sviðið fyrir glæpasögu. Þessa skrítnu viku í miðjum mars sem ég lifði sjálfur. Ég fékk heilt ár án ferðamanna þar sem ég gat meir eða minna einbeitt mér að skrifum. Þar að auki hafði ég nógu mikla fjarlægð frá viðfangsefninu til að geta verið kvikindislegur við ferðamennina.

Á hverjum degi er einhverstaðar túristi að brenna sig í hver, detta ofan í gljúfur, drukkna í brotsjó í Black Beach eða fótbrotna í hálku upp við Sólheimajökul. Þótt leiðsögumenn beri ekki lagalega ábyrgð á fullorðnu fólki þá eru þeir sífellt hræddir við að fólk slasist eða verði eftir einhverstaðar. Sannleikurinn er sá að nokkrir ferðamenn slasast eða deyja á hverju ári án þess að íslendingar gefi því mikinn gaum. Fjöldamorðingi í smárútu er því aðeins viðbót við ótal atriði sem góður leiðsögumaður þarf að hafa í huga. 

Bekkurinn – dagbók í Gullhring

Á einu ári fór Þórarinn Leifsson sjötíu og sex sinnum í Gullhring með erlenda ferðamenn. Þegar áð var við Geysi tók hann mynd af bekk sem stendur fyrir framan goshverinn Strokk. Hann skráði jafnframt hjá sér það markverðasta sem gerðist í hverri ferð og gaf deginum einkunn að hætti TripAdvisor. Hér er hægt að fylgjast með framvindu á Facebook síðunni.

Bekkurinn veitir innsýn í tólf mánaða tímabil þegar ferðamannabólan náði hámarki á Íslandi. Sjötíu og sex myndir lýsa síbreytilegri veðráttu um leið og textinn greinir frá fjölbreyttri mannlífsflóru jafnt sem eintóna hversdagsleika miðaldra manns á krossgötum – á vertíð sem virðist aldrei taka enda.

Endurræstur og kominn á ról

Ýmislegt hefur gengið á í lífi Þórarins Leifssonar á síðustu mánuðum. Fyrst skilnaður eftir átján ára hjónaband með tilheyrandi flutningum frá Berlín heim til íslands. Síðan nýtt hlutastarf sem leiðsögumaður á hálendi íslands. Þetta kunna að vera áhugaverðir fréttir fyrir þá sem lásu síðasta kaflan í skáldsögunni Kaldakol sem kom út í nóvember 2017. Reyndar er margt í þeirri bók sem speglar líf höfundar. Hér er hressilegt viðtal  sem Haukur Már Helgason tók í tilefni útgáfunnar.

 

Kaldakol! Allir úr landi!

Skáldsagan Kaldakol kom  út í nóvember 2017. Verkið er nokkuð pólitískt og má meðal annars greina í því gagnrýni á íslenska auðmenn sem mergsjúga þjóðina – mörgum lesendum finnst þeir þekkja eignarhaldsfélagið GAMMA í gervi hins ógurlega Kaldakol. Sagan fékk frábærar viðtökur hjá gagnrýnendum og almennum lesendum eins og sjá má  á heimasíðu hennar. Rithöfundurinn og spaugfuglinn Steinar Bragi Guðmundsson sagði verkið fá „400 stig á Gamma Corporate vísitölunni.“ Annar gagnrýnandi, Rósa María Hjörvar, skrifaði hinsvegar að alvarlegt yfirbragð bókarinnar gæfi „engan veginn til kynna hversu drepfyndin sagan er …“ 

Þvottahúsið í Barselóna

Ég veit ekki hvernig katalónska skiptinemanum datt í hug að auglýsa íbúðina sína til leigu í fjöldapósti um miðja nótt. En það svínvirkaði. Ég hímdi hálf slompaður og dofinn yfir tölvunni þegar pósturinn datt inn í hólfið. Ennþá reiður við sjálfan mig fyrir að hafa farið að rífast við Sollu um eitthvað sem skipti engu máli. Og reiður við hana fyrir að gera alltaf svona mikið mál úr öllu. Ég átti afmæli. Ókei, ég drakk kannski einum drykk of mikið en þetta var mitt andskotans afmæli.

(Smásaga sem birtist fyrst í TMM)

Lesa áfram “Þvottahúsið í Barselóna”

Verðlaunaafhending í Iðnó

Þetta hljómaði næstum því eins og bölvun. Maður er nefndur … tilnefndur.
Konan mín hafði reynt að ná í mig í síma allan daginn. Hún stóð í gættinni þegar ég kom heim eins og einhver væri dáinn eða barn fætt á Landsspítalanum.  Þú ert tilnefndur til menningarverðlauna DV, sagði hún. Þú átt að mæta niður í Iðnó klukkan fimm.
Nei, sagði ég. Fokking markaðsdeildin. Ég vil ekki! Lesa áfram “Verðlaunaafhending í Iðnó”

Þú færð aldrei nein fokking ritlaun!

Mig langaði til að skrifa lýsingu á ársfundi Rithöfundasambands Íslands fyrir  Subbukarlavefinn.  Fyrst datt mér í hug að nálgast verkefnið á svipaðan hátt og Hunter S. Thompson gerði í Fear and Loathing in las Vegas. Ég gæti kallað greinina Skrifandi skáld í borg óttans eða eitthvað í þeim dúr. Svolítið unggæðingslegt kannski. Og þegar á reyndi gekk þetta ekki alveg upp.

(Birtist í Subbukörlum og sóðaritum vorið 2012) Lesa áfram “Þú færð aldrei nein fokking ritlaun!”