Viðtal, Morgunblaðið

Submitted by totil on Sat, 11/01/2014 - 21:52
Icelandic


Maðurinn sem hataði börn er ný barnabók eftir Þórarin Leifsson rithöfund og myndlistarmann, prýdd myndum eftir hann. „Bókin fjallar um innflytjendafjölskyldu sem kemur frá Barcelona til Íslands af því að amman, með tvö barnabörn, erfir hús eftir íslenskan sjómann. Allt í einu eru þau komin í hús í vesturbæ Reykjavíkur,“ segir Þórarinn. „Svo gerist það að einhver er farinn að myrða tólf ára gamla drengi um allan bæ og hausar og aðrir líkamspartar finnast hér og þar.“

Þetta hljómar nokkuð óhuggulega miðað við barnabók.

„Ég er alltaf að leika mér með þessi mörk, hvað er fyrir börn og hvað er fyrir fullorðna. Mín reynsla er sú að börn þola aðeins meira af óhuggnaði en við höldum. Þegar ég var tíu ára var ég sjálfur að lesa um óhugguleg morð. Sem barn fannst mér eitthvað heillandi við hryllinginn og það að vera hræddur. Í þessari bók leysi ég hnútinn í endann með því að ljúka henni á óræðan hátt, þannig að þau börn sem hafa verið skelkuð ættu að róast. Þetta er ólíkt því sem ég myndi gera ef ég væri að skrifa fyrir fullorðna. Gallinn við þannig fullorðinsbækur er að þær enda allar á hrúgu af líkum og það er svo mikil klisja. Ég varð að enda mína bók öðruvísi.“

Það er varla tilviljun að aðalpersónur sögunnar eru innflytjendur, eða hvað?

„Það eru ýmsar ástæður fyrir því að innflytjendur koma þarna við sögu. Ég var hálfgerður innflytjandi sjálfur þegar kom til Íslands tíu ára frá Danmörku og var ekki lesandi á íslensku, bara dönsku. Svo er ég Rauða-kross foreldri og geri reyndar grín að þeirri reynslu í bókinni, en þar er feitur karl að hjálpa fjölskyldunni að rata um Reykjavík. Sá karl er ég.“

Þórarinn hefur nýlokið við leikrit sem nefnist Útlendi drengurinn og verður frumsýnt í Tjarnarbíói 16. nóvember, á Degi íslenskrar tungu. „Leikritið fjallar um venjulegan íslenskan strák sem fer í Pisa próf og útkoman er á þann veg að hann er flokkaður sem útlendingur, missir ríkisborgararéttinn og bíður örlaga sinna í skólanum Þeta er paródía á umræðuna um menntastefnuna og læsi drengja, án þess að ég sé að taka beina afstöðu.“

Þú skrifar mikið og ekki síst fyrir börn. Af hverju kýstu að skrifa fyrir börn?

„Kannski er það þörf fyrir að standa fyrir utan hlutina og vera ekki flokkaður. Nýja markaðsstjóranum hjá Forlaginu fannst fyndið að ekki væri hægt að flokka mig og hafði gaman af því. Ég hef engan áhuga á að vera stimplaður, ekki heldur í pólitík. Rithöfundar eiga að vera gagnrýnir, ekki flokksbundnir.

En varðandi barnabækur þá held ég líka að ég hafi farið að skrifa fyrir börn vegna þess að ég er heillaður af hinum myndskreytta heimi. Þegar ég var barn var Góði dátinn Svejk uppáhaldsbókin mín og þar skiptu myndirnar mjög miklu máli. Mómó eftir Mikael Ende var líka ofarlega á vinsældalistanum hjá mér, þar var það fantasían sen heillaði.“

Þórarinn býr í Berlín ásamt konu sinni, Auði Jónsdóttur rithöfundi og ungum syni þeirra. Hann segir afar gott að búa í Berlín. „Ég fór til Berlínar fyrir ári með tvö hálfkláruð handrit og mér gekk mjög vel að fullvinna þau í borginni. Það er eins og maður öðlist aukaheim við að búa erlendis. Best er reyndar að geta búið bæði á Íslandi og í útlöndum og við gerum það að miklu leyti.“

Spurður um næstu verkefni segir hann: „Tvö síðustu verk mín fjalla um útlendinga í íslensku samfélagi og mig grunar að tvö næstu verkefni mín verði um Íslendinga í útlöndum.“