Dómur, Sirkustjaldið

Submitted by totil on Sat, 11/01/2014 - 21:46

„Ég er alltaf að leika mér með þessi mörk, hvað er fyrir börn og hvað er fyrir fullorðna. Mín reynsla er sú að börn þola aðeins meira af óhugnaði en við höldum.” sagði rithöfundurinn Þórarinn Leifsson í viðtali um bók sína Maðurinn sem hataði börn. Þar svaraði hann spurningu blaðamanns Morgunblaðsins um hvort að glæpasögur væru viðeigandi form fyrir barnabókmenntir en nýútkomin bók Þórarins hverfist um morðöldu í Reykjavík þar sem fórnarlömbin eru tíu ára drengir. Líkamspartar af drengjunum finnast á tilteknum stöðum í Vesturbænum: Bónus úti á Granda, fyrir framan Hagaskóla, við Pétursbúð á Ránargötu og fleiri stöðum sem skipa stóran sess í lífum Vesturbæinga. Það vantaði aðeins Melabúðina og nýja kaffihúsið.

Yfirlýsing Þórarins um þolmörk barna á þó í þessu tilviki við mun fleira en gróteskt ofbeldi og ógnvænlega morðingja. Í verkinu er vissulega unnið með hrylling, augu finnast í ólívukrukkum og blóðugt höfuð í pappakassa en samhliða því gefur höfundur ungum lesendum sínum tækifæri til að takast á við önnur alvarleg málefni í verkinu.

Af feiknarmörgu góðu við bókina liggur helsti styrkleiki hennar í afbragðs persónusköpun. Persónur sögunnar kallast á snjallan hátt við ýmsa þjóðþekkta einstaklinga sem gefur höfundi einnig færi á að vinna með málefni samtímans á hátt sem er bæði frumlegur og fyndinn. Höfundur gerir einnig óspart grín að sjálfum sér og hinum steríótýpíska bókmenntaunnanda á mjög skemmtilegan hátt. Kattablæti Forlagsins kom til dæmis upp í hugann við lesturinn.

Aðalsögupersónan, Sylvek Kaminski Arias, spænskur innflytjandi sem býr í Vesturbænum ásamt ömmu sinni, Silvíu Kandella Maria Karmen Arias, eða Sigríði Sjutt eins og hún er kölluð á Íslandi. Uppruni persónanna gefa Þórarni tækifæri til þess að ávarpa stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi. Hann gerir Sylvek að mikilvægum lið í því að leysa ráðgátuna um hrottalegu drengjamorðin og upphefur þannig persónu innflytjenda sem er því miður oft undirskipuð í samfélagi okkar. Auk þess varpar bókin ljósi á ýmis vandvæði sem innflytjendur mæta sem gerir ungum lesendum auðveldara að setja sig í spor þeirra. Samband Sylvek við íslenska tungu verður hluti af þroskasögu hans. Því fleiri hindranir sem hann kemst yfir því nær kemst hann því að takast á við ógnvænlegar kröfur um fullkominn framburð og beygingu sem hér þykja sjálfsagðar, á árangursríkan hátt.

Það skrýtna var að meðan ég var að romsa þessu út úr mér fann ég að eitthvað hafði breyst. Ég var ekki lengur feiminn við að tala íslensku [...] Þetta ferkantaða tungumál gubbaðist út úr mér eins og gos úr hristri flösku. Það var ekki nóg með að ég var ekki lengur hræddur við Manninn sem hataði börn. Ég var ekki lengur hræddur við neitt.

Sylvek þarf ekki aðeins að taka á honum stóra sínum þegar kemur að því að elta uppi grimman morðingja heldur þarf hann að horfast í augu við vanhæfni íslensku lögreglunnar og þar er ýjað að skammarlegri meðferð sem þolendur í nauðgunarmálum hafa orðið fyrir af höndum yfirvalda. Böðvar Blakkmann lögreglustjóri sem kann ekki á tölvur og þolir ekki blóð er dæmi um áhrifamikla persónusköpun í verkinu. Einnig kynnist Sylvek steratröllum sem búa í undirheimum Reykjavíkur en í verkinu eru þau ein helsta ógn íslensks samfélags.

Maðurinn sem hataði börn er stórskemmtilegt verk. Það skilur eftir sig spurningar, bæði um verkið sjálft og það þrekvirki sem höfundi tekst, að semja sögu sem er eins fyndin, gagnrýnin og margslungin og raun ber vitni. Einnig sitja eftir spurningar um hvað telst viðeigandi fyrir börn annars vegar og fyrir fullorðna hins vegar. Höfundur var spurður hvort glæpasögur væru viðeigandi lesefni fyrir börn. Í tilviki þessarar bókar hefði einnig mátt spyrja hvort útlendingaandúð, nauðganir, fjölskylduerfiðleikar, misbeiting valds og kvenfyrirlitning samfélagsins séu viðeigandi þættir í barnasögu? Svarið væri líklega hið sama, óhugnalegir hlutir eru allt í kringum okkur og auðvitað fara börn ekki varhluta af því. Enn fremur má spyrja hvort það sé skaðlegt að bjóða börnum bara upp á bókmenntir þar sem heimurinn er birtur á fagran hátt. Hvenær eru börn nógu þroskuð til að takast á við bókmenntir þar sem fjallað er um grimmar hliðar veruleikans? Þegar raunveruleikinn er sá að líf þeirra allra mótast af þeim sama veruleika.

Sólveig Ásta Sigurðardóttir

Undefined