Um Þórarinn

Icelandic

Leifsson readin with swine fluÞórarinn Leifsson er fæddur 1966. Eftir brottfararpróf frá málaradeild Myndlistar og Handíðaskóla Íslands vorið 1989 starfaði hann við skiltamálun, auglýsingahönnun og vefsmíði auk þess sem hann myndskreytti bækur, bókakápur og blaðagreinar. Meðal þekktari verka Þórarins frá þeim tíma eru myndskreytingar við röð ævintýra eftir H.C. Andersen sem kom út víða á Norðurlöndum.

Fyrstu textar Þórarins birtust í myndasögum í dagblöðum og tímaritum á árunum 1990-1994. Hann var síðan meðhöfundur að barnasögunni Algjört frelsi (2001) ásamt Auði Jónsdóttur.

Ferill Þórarins sem rithöfundur hófst þó fyrst í alvöru þegar Leyndarmálið hans Pabba kom út árið 2007. Þetta var myndskreytt bók um mannætupabba og fjölskyldu hans.

Í kjölfarið kom Bókasafn Ömmu Huldar haustið 2009. Nú var textinn orðinn lengri og myndskreytingar í svart hvítu. Sagan var skrifuð undir djúpum áhrifum frá samtíma höfundar, efnahagshruninu og tómhyggjunni sem einkenndi árin á undan.
Bókasafn Ömmu Huldar hlaut Barnabókaverðlaun Menntaráðs 2010 og var tilnefnd til Norrænna barnabókarverðlauna í janúar 2011.

Götumálarinn,  kom út haustið 2011. Þetta var saga fyrir aðeins eldri lesendur en þær fyrri, endurminningar með skáldlegu ívafi frá unglingsárum höfundar. Bókin hlaut afbragðs góða dóma og var meðal annars tilnefnd til menningarverðlauna DV.

Leikritið Útlenski drengurinn  var frumsýnt í Tjarnarbíó á degi tungunnar í lok ársins 2014.  Verkið hlaut fádæma góðar viðtökur og var sýnt fyrir fullu húsi í níu skipti fyrir jól. Ráðgert er að halda áfram sýningum í mars 2015. Það er óháði leikhópurinn Glenna sem stendur að sýningunni en í honum eru margir af fremstu leikarar og leikhúslistamenn þjóðarinnar.

Haustið 2014 sendi Þórarinn einnig frá sér bókina Maðurinn sem hataði börn. Þetta er nokkurs konar krimmi eða hryllingssaga ætluð börnum jafnt sem fullorðnum. Verkið hlaut afar góðar viðtökur gagnrýnenda jafnt sem lesenda og var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunana núna nýverið í flokki barnabóka.

Bækur Þórarins Leifssonar hafa verið þýddar og gefnar út í Þýskalandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Eistlandi og Færeyjum. Á næstu árum bætast við þýðingar á ítölsku, tyrknesku, portúgölsku og ungversku.